Sáralítil úrkoma var á Akureyri í júnímánuði sem er nýliðinn. Úrkoman mældist aðeins 0,33 millimetrar og þarf allt aftur til ársins 1933 til að finna mánuð með jafn litla úrkomu, en í maí það ár rigndi nákvæmlega ekki neitt á Akureyri. Hitafar á Akureyri var gott í síðasta mánuði en meðalhitinn var 10,7 gráður sem er 1,6 gráðum ofan við meðaltal. Júní á síðasta ári var þó heitari og einnig sami mánuður árið 1933. Sólarstundir voru 217 á Akureyri í síðasta mánuði sem er 40 stundum umfram meðaltal.