Listasumar um helgina

Á Listasumri á Akureyri um helgina eru sex listaopnanir. Í Myndlistarfélaginu opna tvær sýningar, Sigga Ella sýnir ljósmyndaröðina "Fyrst og fremst ég er" i salnum og það verk samanstendur af portrettmyndum af tuttugu og einum einstaklingi með Downs heilkenni á aldrinum 9 mánaða til 60 ára. Um tilurð verkefnisins segir ljósmyndarinn: „Ég heyrði viðtal í útvarpinu um siðferðisleg álitamál þess að nýta sér tæknina til þess að velja einstaklinga, einn frekar en annan til þess að vera til. Mér finnst þessar siðferðisspurningar umhugsunarverðar. Hvert stefnum við? Er hugsanlega stefnt að því að útrýma fólki með Downs heilkenni?

Ég átti yndislega föðursystur með Downs heilkenni, Bergfríði Jóhannsdóttur, eða Beggu frænku. Það er erfitt að hugsa um útrýmingu Downs og hana í sömu mund.“

Í Kompunni/Boxinu opnar ungur og upprennandi listamaður Stefan Bessason sýninguna „Náttúrupælingar 1“. Stefán Bessason er 23 ára og útskrifaðist af Listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri í vor og stefnir á frekara listnám. Stefán hefur tvisvar áður sýnt verk sín, en þetta er hans fyrsta einkasýning. Olíumálverkin eru landslög, lögð undir grunnformum, með vissa áherslu á láréttu línuna. Myndirnar eru skissaðar upp úti í náttúrunni með vatnslitum og síðar unnar á vinnustofu þar sem leikið er með liti og form. Litirnir eru í flestum tilfellum lagðir í þunnum lögum af olíulit svo að hvert lag af lit hefur áhrif á það næsta og formin eru brotin upp á nánast kúbískan hátt. Gerð er tilraun til þess að gera einhverja grein fyrir upplifuninni sem náttúran er. Opnunin er 1. ágúst kl. 14.

Á Græna hattinum örlar á nostalgíu því Dúndurfréttir verða með tvenna tónleika, bæði fimmtudag og föstudag, og á laugardagskvöldinu munu Ljótu Hálfvitarnir stíga á stokk. Maus munu svo spila á sunnudagskvöldið.

CAFF Conservation of Artic Flora and Fauna stóð fyrir ljósmyndasamkeppni fyrir skömmu og verða vinningsmyndirnar sýndar í Hofi, Menningarfélagi Akureyrar undir yfirskriftinni „Lífríki Norðurslóða í gegnum linsuna“, sýningin opnar 31. ágúst kl 14, utandyra.

Á laugardaginn, 1. ágúst og einnig í Listagilinu, í Deiglunni verður opnun á sýningunni „Heimspekilegur garður“ um ræðir innsetningu, hljómmynd og dansgjörninga. Heimspekilegur garður er safn ólíkra pólitískra, sjónrænna og heimspekilegra fyrirbæra sem fólk flytur með sér yfir höfin. Innsetningin er unnin af Laura Miettinen, Karli Guðmundssyni, Rósu Júlíusdóttir og Mari Krappala. Dansgjörningur er fluttur af Kaaos Company sem er blandaður danshópur (atvinnudansara með og án fötlunar). Á morgun, föstudag mun hópurinn vera með dansgjörning í Lystigarðinum kl 15 og bjóða alla velkomna.

Í Verksmiðjunni á Hjalteyri er einnig opnun um helgina en þá munu þau Olof Nimar, Una Margrét Árnadóttir, Unndór Egill Jónsson og Örn Alexander Ámundason sýna saman í fyrsta skipti í Verksmiðjunni á Hjalteyri undir yfirskriftinni "Toes/Tær". Leiðir myndlistarmannanna, sem að eiga það sameiginlegt að hafa lært í Svíþjóð, lágu saman í lítilli stúdíóíbúð í Malmö þar sem fyrstu uppköstin að sýningunni urðu til. Þrátt fyrir að vinna í ólíka miðla deila þau áhuga á hinum ýmsu möguleikum og eiginleikum verksmiðjunnar s.s stórbrotnu umhverfi, stærð hennar og hráleika. Opnunin verður 1. ágúst kl. 14:00. Á opnunardegi verður lifandi tónlist og veisla í Verksmiðjunni um kvöldið, skipulögð af heimamönnum. Sýningin verður opin þriðjudaga ­ sunnudaga kl. 14:00­17:00 og mun standa til 30. ágúst.

Í Mjólkurbúðinni verður líka opnun, laugardaginn 1.ágúst opnar samsýningin "Ég sé allt í kringum þig", kl. 15:00. Á sýningunni gefur að líta valdar myndir af manneskjum og dýrum með sérstaka áherslu á bakgrunn verkanna. Málverk af andlitum og svipbrigðum eru oft heiðarleg leið til að gefa upp ákveðinn sannleika, á meðan bakgrunnurinn fær að leika lausum hala. Um sýningarstjórn sér Hekla Björt Helgadóttir, í sýningunni taka þátt 11 listamenn. Sýningin stendur til 9. ágúst og eru allir hjartanlega velkomnir.

 

Nýjast