Sýndarveruleikasýningunni Femina Fabula, sem stendur nú yfir í sal 08 í Listasafninu á Akureyri, lýkur næstkomandi sunnudag. Sýningin hefur hlotið mikil og góð viðbrögð gesta safnsins og hafa yfir sjöhundruð manns borið hana augum á síðustu sex vikum. Sýningin byggir á hugmyndum sex sviðslistakvenna sem tjá kvenlega næmni og krafta með aðstoð sýndarveruleikagleraugna. Verkin urðu til í samvinnu þeirra við myndlistarkonuna Kirsty Whiten og leikstjórann Kristján Ingimarsson, sem er listrænn stjórnandi verksins.
„Viðbrögð gesta hafa verið mjög jákvæð og margir þeirra hafa komið oftar en einu sinni,“ segir Hlynur F. Þormóðsson, kynningarstjóri Listasafnsins. „Á sýningunni kanna listakonurnar Kajsa Bohlin, Lalla la Cour, Anna Stamp, Noora Hannula, Tuba Keleş og Linh Le samband sitt við heiminn og möguleika hins skapandi menningar- og náttúrukrafts sem býr í kvenleikanum.
Vinnuaðferðirnar felast að miklu leyti í sameiginlegum ferlum og samskiptum við lífsformið. Upptökurnar annaðist Kristján Ingimarsson ásamt Andro Manzoni og Áka Frostasyni. Þeir tveir síðastnefndu eru í salnum og taka á móti gestum, útskýra fyrir þeim verkið og aðstoða við tæknina. Kristján er auðvitað flestum kunnur fyrir verkin Room 4.1 og Blam! Hann hefur verið búsettur síðustu áratugi í Danmörku, en var bæjarlistamaður Akureyrar 2007.
Þetta er einstök sýning og ég hvet alla þá sem hafa ekki séð hana að leggja leið sína í Listasafnið um helgina,“ segir Hlynur að lokum.


