List án landamæra á Norðurlandi sett á morgun

Hátíðin List án landamæra er einstök í sinni röð þar sem fatlaðir og ófatlaðir mætast í list sinni. Hátíðin á Norðurlandi er búin að festa sig í sessi og á hverju ári færir hún áhugasömum viðburði sem spanna allt litróf listanna. List án landamæra á Norðurlandi stendur yfir 2. – 19. maí og er sjálf opnunarhátíðin í Hofi á morgun, fimmtudaginn 3. maí klukkan 14.00. Það er Soffía Lárusdóttir framkvæmdastjóri búsetudeildar Akureyrarbæjar sem setur hátíðina.  Nemendur í tónlistarhópi Fjölmenntar spila og syngja undir stjórn Láru Sóleyjar Jóhannsdóttur, afar fjölmennur leikhópur Fjölmenntar sýnir leikritið um Mjallhvíti og dvergana sjö í leikstjórn Sögu Jónsdóttur og síðast en ekki síst verður frumflutt nýtt lag eftir tónskáldið Jón Hlöðver Áskelsson og er lagið tileinkað hátíðinni.  Lagið er flutt af Jóni Hlöðveri sjálfum, sem sest nú aftur við píanóið eftir mikla fjarveru, Barnakór Giljaskóla undir stjórn Ástu Magnúsdóttur syngur og fleiri hljóðfæraleikara taka þátt í flutningnum.  Nemendur Fjölmenntar og Hæfingastöðvarinnar við Skógarlund opna sýningu í Hofi á munum sem þau hafa unnið í vetur.  Að lokinni dagskrá verður boðið upp á léttar veitingar.  Opnunarhátíðin hefst sem fyrr segir klukkan 14 og eru allir hjartanlega velkomnir.

Af öðrum dagskrárliðum Listar án landamæra á Norðurlandi má nefna Geðvegginn í Pennanum/Eymundsson en þar vekur Ragnheiður Arna Arnarsdóttir athygli á geðsjúkdómum með því að skoða þekkt fólk og geðsjúkdóma, í Hæfingastöðinni í Skógarlundi verður opið hús og myndlistasýning 10. og 11. maí  og laugardaginn 19. maí vígir hópurinn Geðlist Sám smámunavörð sem staðsettur verður við Smámunasafnið í Eyjafirði en hópurinn hefur áður gert Safnvörðinn sem stendur við Safnasafnið á Svalbarðseyri og Skógarvörðinn sem verndar Kjarnaskóg á Akureyri. 

Á Húsavík er sýning á vegum Listar án landamæra í Menningarmiðstöð Þingeyinga.  Þar sýna notendur Miðjunnar hæfingastöðvar mósaíkverk unnin síðastliðinn vetur.  Einnig verður sýningin Ull og endurvinnsla þar sem notendur Geðræktarmiðstöðvarinnar Setursins sýna og selja listmuni . 

 

 

Nýjast