Lifandi lög – alltaf og alls staðar

Nýlega kom út bókin "Law and Justice in Community" (Lög og réttlæti í samfélagi) eftir tvo kennara við Háskólann á Akureyri, Tim Murphy, prófessor í lögum og Garrett Barden, gestaprófessor. Bókin er gefin út af einu virtasta útgáfufélagi fræðilegs efnis í heimi, Oxford University Press. Í bókinni er sett fram ný lagakenning sem byggist á þeirri hugmynd að lög séu fyrir hendi í öllum mannlegum samfélögum áður en þau eru í nokkrum skilningi formlega sett eða tjáð.   

„Við notum dæmið um landnám Íslands til að benda á að lög, svipað og samfélög, tungumál eða siðferði, eru aldrei fundin upp eða búin til, heldur verða lög til hvenær sem fólk myndar samfélag," segir Tim Murphy, annar höfunda bókarinnar. „Hvert samfélag á sína fyrstu lögbók, t.a.m. á Ísland bókina Grágás, og það er tilhneiging fólks að halda því fram að saga laga í samfélögum hefjist þegar þessar bækur verða til. En saga laga í samfélögum byrjar löngu áður en þau voru skrifuð niður eða gerð formleg."

Höfundar setja fram kenningu sem þeir kalla"lifandi lög" sem þeir segja að séu alltaf og alls staðar til í mannlegu samfélagi. Með "lifandi lögum" er fyrst og fremst átt við gildismat og gildisval sem er almennt viðurkennt og samþykkt í tilteknu samfélagi. „Við notum hugtakið „lifandi lög" til að útskýra þau lög sem voru í gildi áður en lög voru formlega sett fram af yfirvöldum. Í hverju samfélagi eru lifandi lög burðarstoðir stjórnarskráa og löggjafa," segir Tim.

Bókin hefur sterka íslenska skírskotun. Fuglinn á forsíðu hennar er grágæs, sem vísar til umfjöllunar um Grágás og landnám Íslands til stuðnings kenningunni um hin "lifandi lög". "Einkunnarorð bókarinnar eru tekin beint úr Njálssögu, „Með lögum skall land byggja og ólögum eyða". Þessa setningu túlkum við fyrst og fremst sem skírskotun til „lifandi laga" en ekki formlegrar löggjafar," segir Tim í fréttatilkynningu.

Nýjast