Líf og fjör á öldungamótinu í blaki

Akureyringar sendu fjölmörg lið til keppni á Öldungamótið í Garðabæ og var gengið misjafnt eins og gefur að skilja. Alls kepptu 102 lið í fjórtán deildum og voru keppendur um 800 á þessu móti sem fór fram fyrir stuttu.

Óðinn vann öðlingadeild karla en þar keppa 50 ára og eldri. Má segja að Óðinsmenn séu orðnir áskrifendur að titlinum því þeir unnu þessa deild fimmta árið í röð.

Indriði Arnórsson, kennari við VMA og stórsmassari í liði Óðins, var kjörinn besti leikmaður deildarinnar og var hann vel að titlinum kominn. KA-Freyjur og Eik sendu lið í öðlingadeild kvenna og höfnuðu Freyjurnar í 5. sæti en lið Eikar í 7. sæti.

Í öldungaflokknum, en þar keppa 30 ára og eldri, var það lið KA-Freyja sem stal senunni með því að sigra alla sína leiki í 3. deild kvenna. Þar fór Natalia Gomzina á kostum enda var hún kjörin besti leikmaður deildarinnar.

Í karlaflokki sendi KA þrjú lið til leiks. Tvö þeirra spiluðu í 1. deild og er það einsdæmi að félag geti haldið úti tveimur liðum í svo sterkri deild. Reyndar var þetta sjötta árið í röð sem KA er með tvö lið í 1. deildinni. A-lið KA, sem hefur ávallt verið í fremstu röð, átti frekar slakt mót og endaði í 5. sæti. Ö-liðið hinsvegar hélt uppi heiðri félagsins og kom út úr skugga A-liðsins með því að sigra það í innbyrðisleik liðanna. Kampakátir Ö-liðsmenn náðu á endanum 3. sæti en í liði þeirra var stórsleggjan Davíð Búi Halldórsson nánast óviðráðanlegur andstæðingum liðsins.

Þriðja og skemmtilegasta lið KA var K-liðið og spilaði það í 3. deild. Liðið gerði sér lítið fyrir og náði 2. sætinu eftir svaka baráttu við Fram. K-liðið vann sér þar með rétt til að leika í 2. deild að ári.

Nánar verður sagt frá mótinu í næsta tölublaði Vikudags sem kemur út miðvikudaginn 16. maí.

Nýjast