Leitast við draga fram sóknarfæri, styrkleika og sérstöðu svæðisins

Rúmlega 100 manns tóku þátt í þjóðfundi fyrir Norðausturland, sem haldinn var í Verkmenntaskólanum á Akureyri um síðustu helgi. Þar var unnið í hópum og leitast við að draga fram sóknarfæri, styrkleika og sérstöðu sem er til staðar á þessu landssvæði og gera tillögur og áætlanir á grunni þeirra.  

Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri Eyþings segir að um sé að ræða hluta af verkefni á vegum stjórnvalda og er ætlað að stuðla að sterkari samfélögum til framtíðar. Lögð hafi verið sérstök áhersla á að draga fram sérstöðu svæðsins og hvað það er sem skilur þennan landshluta frá öðrum. Jafnframt hafi verið hugað að snertiflötum við önnur svæði, bæði austan og vestan við Norðausturland. "Það eru ýmsar áætlanir í gangi á vegum ríkisins, varðandi samgöngumál, fjarskipti, byggða-, ferða- og menntamál, svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt að endurskipuleggja opinbera þjónustu, bæði á milli ráðuneyta og þjónustu út um land."

Pétur Þór segir að fjölmargar hugmyndir hafi komið fram á fundinum í VMA og að margar þeirra hafi sést áður. Sérstakur úrvinnsluhópur mun í framhaldinu fara betur yfir þessar hugmyndir og tillögur, grisja þær og forgangsraða. "Það komu fram mjög áberandi hugmyndir sem tengdust ferðaþjónustu og þá ekki síst yfir vetrartímann. Menn horfðu til Tröllaskagans og sérstöðu hans árið um kring. Einnig til Mývatns, Jökulsárgljúfurs, Langaness og Melrakkasléttu. Það komu fram hugmyndir um íþróttabæinn Akureyri, vegna þess hversu fjölbreytt íþróttalífið er hér og aðstaðan góð."

Skipulagðir voru þjóðfundir í hverjum landshluta og þangað boðið fulltrúum hinna ýmsu hagsmunaaðila og íbúum á svæðunum. Pétur Þór segir ráðgert að úrvinnsluhópar landshlutanna skili af sér á fundi sem er áformaður er á Akureyri þann 25. mars nk.

Nýjast