Leikritið Með fullri reisn sló í gegn í vetur

Leikfélag Hörgdæla sýnir leikritið Með fullri reisn á Melum um helgina, alls þrjár sýningar og eru þær jafnframt þær síðustu í vor. Ákveðið hefur verið að taka þráðinn upp að nýju í haust þannig að þeir sem ekki höfðu tök á að sjá þetta vinsæla verk nú fá tækifæri til þess í október.  

Bernharð Arnarson formaður Leikfélags Hördæla segir ekkert lát á vinsældum verksins, en vorannir bænda sem framundan eru valdi því að sýningum er hætt í bili. Fullt hefur verið á allar sýningar, en frumsýning var í byrjun mars og nú þegar lotunni lýkur um helgina eru þær orðnar 30 talsins.  Áhorfendur eru um 2.800 í allt.  „Við hættum núna fyrir fullu húsi og með biðlista, þannig að sú ákvörðun var tekin að hefja sýningar á ný aftur í haust.  Bændur þurfa nú að snúa sér að sauðburði og öðrum vorverkum í sveitinni," segir Bernharð.

Hann segir menn afskaplega ánægða með hversu vel tókst til og að verkið hafi algjörlega slegið í gegn.  Mikið var um aðkomufólk á sýningum félagsins í vetur og komu sumir um langan veg til að sjá sýninguna.  „Við teljum okkur hafa sannað að nekt selur, sama í hvað mynd hún er, misvel vaxnir bændur sem fækka fötum hafa greinilega mikið adráttarafl," segir Bernharð.

Nýjast