Leikstjóri er María Sigurðardóttir, og leikarar Björn Ingi Hilmarsson, Atli Þór Albertsson, Jóhann G. Jóhannsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir. Í leikritinu segir frá hinum dekraða glaumgosa Richard Hannay, sem er vanur ljúfu lífi bresku yfirstéttarinnar, en sogast skyndilega inn í æsispennandi atburðarás þar sem morð, njósnarar, brjálaðir prófessorar, Skotar og vitaskuld íðilfagrar konur kom við sögu. Söguhetjan Hannay er meðal fyrstu hefðarmanna-hetjanna í bókmennta- og kvikmyndasögunni, og má segja að hann hafi, ásamt Sherlock Holmes, rutt brautina fyrir seinni tíma hetjur á borð við James Bond.
Það er óhætt að segja að leikgerðin sé ekki öll þar sem hún er séð, en hana skrifaði breski háðfuglinn Patrick Barlow. Í þessum nýstárlega og sprenghlægilega spennu-gamanleik takast fjórir hugrakkir leikarar á við 139 hlutverk, í einhverjum hröðustu, mest spennandi og fyndnustu 100 mínútum sem sést hafa á leiksviði.