Eitt hundrað ára sögu Laugaskóla var minnst með hátíðarhöldum þann 25.október síðastliðinn. Dagskráin hófst kl. 10.00 með því að um 100 boðsgestum var boðið í Þróttó að sjá heimildarmyndina Voru allir hér? - Laugar í 100 ár eftir Ottó Gunnarsson. Stefán Jakobsson samdi lag í tilefni afmælisins sem heitir Voru allir hér og ber því myndin sama heiti, enda voru þeir báðir nemendur við Laugaskóla. Að sýningu lokinni var boðsgestum boðið í hádegismat í mötuneyti skólans. Almenn hátíðadagskrá hófst kl. 14.00 í íþróttahúsinu.

Guðmundur Ingi Kristinsson mennta og barnamálaráðherra ávarpaði samkomuna
Formaður afmælisnefndar Kristján Guðmundsson bauð gesti velkomna og setti dagskrána. Höskuldur Þráinsson tók við veislustjórn og kynnti Sigurbjörn Árna Arngrímsson skólameistara fyrstan á svið með yfirlit um sögu skólans og mikilvægi stofnunarinnar í menntamálum. Aðrir sem fluttu ræður voru Guðmundur Ingi Kristinsson menntamálaráðherra, Logi Einarsson menningar, nýsköpunar og háskólaráðherra, Valgerður Gunnarsdóttir fyrrum skólameistari, Helga María Halldórsdóttir formaður nemendafélagsins. Ávarp eldri nemenda flutti Margrét Ívarsdóttir og að lokum var ávarp Unu Maríu Óskarsdóttur, formanns hollvinafélags Laugaskóla. Á milli ræðuatriða voru mörg tónlistaratriði. Að lokum söng Stefán Jakobsson frumsamið lag sitt Voru allir hér. Una María Óskarsdóttir og Kristján Guðmundsson afhjúpuðu svo bronsstyttuna Laugaparið, eftir Höllu Gunnarsdóttur listamann. Styttan er gjöf frá Vinum Laugaskóla og velunnurum skólans.

Þráinn Árni Baldvinsson, Mugison, Edda Björg Sverrisdóttir.
Að lokinni dagskrá var öllum viðstöddum boðið í kaffi og afmælistertu í íþróttahúsinu. Á sama tíma gafst gestum kostur á að skoða húsnæði skólans og þá aðstæður sem nemendur búa við í dag, kennslurými og heimavistarhúsnæði. Einnig var sýning í Dvergasteini á munum skólans og verkefnum nemenda sem þau hafa unnið að í áfanganum um sögu Laugaskóla í umsjón Rögnu Heiðbjartar Ingunnardóttur. Húsmæðraskólinn á Laugum var einnig opinn fyrir gesti þennan dag ásamt því að bíómyndin Voru allir hér, var sýnd nokkrum sinnum í Þróttó eftir dagskrá í íþróttahúsinu. Um kl. 18.00 var öllum boðið í hamborgara í matsal skólans og kl. 20.00 hófust tónleikar í íþróttahúsinu. Tónlistarveislan hófst á því að tíu sigurvegar Tónkvíslar, liðinna ára, sungu sitt sigurlag undir stjórn skólahljómsveitarinnar sem skipa þeir Jón Aðalsteinn Snæbjörnsson, Ellert Knútsson, Hafþór Höskuldsson og Snorri Freyr Sigurðsson.
Að því loknu skemmtu Stefán Jakobsson, Mugison, Þráinn Árni Baldvinsson, Edda Björg Sverrisdóttir, Knútur Emil Jónasson og Oddur Bjarni Þorkelsson áhorfendum með söng sínum sem jafnframt eru allir fyrrum Lauganemendur. Hátíðin endaði svo á því að viðstöddum var boðið í matsal skólans í Sæmund; mjólkurkex, kremkex og mjólk. Þá hafði dagskráin staðið yfir í um 13 klukkustundir. Gera má ráð fyrir að yfir 1000 manns hafi sótt skólann heim þennan dag og yfir 2000 matarskammtar hafið verið afgreiddir í mötuneyti skólans þennan skemmtilega laugardag.

Stefán Jakobsson ,,gamall" Laugamaður lét sig ekki vanta og tók auðvitað lagið