Landsvirkjun kaupir hlut Norðurorku í Þeistareykjum

Landsvirkjun og Norðurorka hafa gert samning um kaup Landsvirkjunar á 32% hlut Norðurorku í hlutafélaginu Þeistareykjum ehf.  Eftir kaupin á Landsvirkjun 64% hlut í félaginu en aðrir hluthafar eru Orkuveita Húsavíkur og Þingeyjarsveit. Fyrir hlutinn eru greiddar 4,5 milljónir dollara að aflokinni áreiðanleikakönnun og 11 milljónir dollara til viðbótar þegar orkuvinnsla hefst á umráðasvæði Þeistareykja ehf., þó ekki fyrr en að tíu árum liðnum.  

Þeistareykir ehf. hafa frá árinu 2001 staðið að rannsóknum á möguleikum jarðhitasvæðisins að Þeistareykjum til jarðhitanýtingar.  Hefur félagið fjárfest verulega í því skyni. Boraðar hafa verið 6 djúpar rannsóknarholur frá þremur borteigum á austanverðu svæðinu með góðum árangri, en samtals afkasta holurnar gufu sem jafngildir um 45 MW raforkuframleiðslu. Vísbendingar eru um að þar sé veruleg framleiðslugeta til viðbótar enda er jarðhitasvæðið á Þeistareykjum talið vera eitt af stærri jarðhitakerfum Íslands.

Háhitasvæðin á Norðausturlandi gegna lykilhlutverki í frekari uppbyggingu raforkuvinnslu á Íslandi.  Norðurorka hefur með þátttöku sinni í Þeistareykjum ehf. gegnt mikilvægu hlutverki við undirbúning orkuvinnslu á svæðinu.  Þessi kaup gera Landsvirkjun enn betur í stakk búna að vinna að frekari uppbyggingu á þessu svæði í tengslum við aðra orkukosti fyrirtækisins, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast