Á síðasta fundi íþróttaráðs Akureyrarbæjar var tekið fyrir erindi sem sent var inn f.h. Fimleikasambands Íslands þar sem óskað er eftir æfingaaðstöðu í íþróttahúsi Giljaskóla fyrir landslið í hópfimleikum dagana 1.- 6. ágúst nk. Jafnframt er óskað eftir gistingu fyrir liðin í Giljaskóla. Íþróttaráð fagnar heimsókn landsliða Íslands í hópfimleikum til Akureyrar um verslunarmannahelgina og samþykkti beiðni Fimleikasambands Íslands um afnot af íþróttahúsi Giljaskóla. Beiðni um gistingu í Giljaskóla var vísað til skólanefndar.
Á sama fundi íþróttaráðs var tekið fyrir erindi frá Bílaklúbbi Akureyrar þar sem óskað er eftir afnotum af Boganum fyrir þjóðhátíðarbílasýningu klúbbsins 16.- 17. júní nk. Íþróttaráð samþykkir beiðni Bílaklúbbs Akureyrar en minnir BA á að hafa gott samstarf við forstöðumann mannvirkisins og að hafa brunahönnun fyrir Bogann frá 15. júní 2011 til hliðsjónar við uppsetningu sýningarinnar. Jón Einar Jóhannsson áheyrnarfulltrúi A-lista lagði fram eftirfarandi bókun: Fótboltaiðkun og vélknúin ökutæki eiga ekki samleið í Boganum við óbreyttar aðstæður og ég hvet til að Boginn verði útbúinn með viðeigandi gólfefni svo hann standi undir nafni sem fjölnotahús.