Landsbankinn og Leikfélag Akureyrar endurnýja samstarfssamning

Leikfélag Akureyrar og Landsbankinn endurnýjuðu í dag samstarfssamning sinn. Markmið samstarfsins, sem hófst fyrir fjórum árum, er að fjölga ungu fólki meðal leikhúsgesta hjá LA.  

Samningurinn var undirritaður af Maríu Sigurðardóttur leikhússtjóra LA og Birgi B. Svavarssyni útibússtjóra Landsbankans á Akureyri. Fram kom við undirritunina að árangurinn af samstarfinu hafi verið hreint einstakur en fyrir tilstilli Landsbankans eru í boði sérkjör á árskortum í leikhúsinu fyrir ungt fólk. Aukningin hefur verið um 180% á þessum árum og stefnir í met þetta árið. María sagði að hlutfall ungra leikhúsgesta á Akureyri væri mun hærra en hjá stóru leikhúsunum fyrir sunnan. Hún sagði áberandi að fleira ungt fólk ætti áskriftarkort í leikhúsið hjá LA en algengt er í leikhúsunum og því ljóst að ekki vantaði áhugann hjá ungu fólki á Akureyri og nærsveitum.

Samkvæmt samningum fá Vörðufélagar 25% afslátt af miðum keyptum í forsölu. Þá stendur bankinn straum af kostnaði vegna verkefnis sem ber yfirskriftina "unga fólkið og leikhúsið" en LA býður nemendum skóla á Eyjafjarðarsvæðinu í heimsókn og býður börnum upp á leiklistarnámskeið.

Nýjast