Á dögunum var hægt að horfa á þegar Landinn á RÚV heimsótti lögreglufræðinámið við Háskólann á Akureyri. Okkur lék forvitni á að vita hvernig þetta kom til og kynnast stemmningunni í slíkri heimsókn. Andrew Paul Hill, lektor við lögreglufræðina, varð fyrir svörum. Hann segir að það hafi ekki verið nein formleg kynning sem varð til þess að Landinn heimsótti þau heldur þvert á móti hafi það verið heppileg tilviljun og jákvætt viðhorf áhugasamra aðila sem leiddi þetta spennandi verkefni af sér.
„Árið 2024 skipulagði ég og stýrði þjálfun í tilraunaskyni sem var eins og hálfsdagsæfing þar sem stúdentar úr nokkrum námskeiðum unnu saman,“ segir Andy, eins og hann er kallaður í daglegu tali, og bætir við að vegna afar jákvæðrar endurgjafar hafi verið ákveðið að þróa þetta áfram árið 2025. Meðal annars var ákveðið að nýta leikara í leikinni atburðarás til að auka raunsæi æfinganna, byggt á reynslu hans sem þjálfara hjá lögreglunni í Bretlandi.
Skálduð atburðarás verður að flóknu sakamáli
Það var síðan á skipulagsfundi með leikfélagi á staðnum sem óvænt tækifæri bauðst. „Forsvarsmaður leikfélagsins nefndi að eiginmaður hennar starfaði sem myndatökumaður hjá Landanum og stakk upp á að verkefnið gæti verið áhugavert viðfangsefni fyrir þáttinn,“ útskýrir Andy. Þannig að þó að það væri tilviljun sem fékk Landann til að heimsækja þjálfunina var undirbúningurinn að baki langt frá því að vera tilviljanakenndur: „Þjálfunin hefði aldrei orðið að veruleika nema fyrir frábæra samvinnu milli kennara, lögregluþjálfara, sérfræðinga, lögreglunnar á Akureyri og Reykjavík og hæfileikaríks hóps leikara.“
Meðan á heimsókn Landans stóð voru stúdentar í miðri stóræfingu sem líkti eftir raunverulegri lögreglurannsókn. „Stúdentar úr þremur námskeiðum unnu saman að rannsókn á skáldaðri líkamsárás og þjófnaði sem þróaðist yfir í flóknara sakamál,“ segir Andy. Verkefnið spannaði einn og hálfan dag og stúdentar störfuðu í teymum, héldu fundi, tóku skýrslur af leikurum í hlutverki vitna og unnu að rannsóknarskýrslum.
Öll störf stúdentanna voru metin af blöndu kennara frá Háskólanum á Akureyri, rannsóknarlögreglufólks frá bæði Akureyri og í Reykjavík, auk sérfræðinga frá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu. Þetta þverfaglega samstarf tengdi saman fræðilega þekkingu og hagnýta færni með sérstaka áherslu á samskipti og rannsóknargetu.
Stúdentar og þjálfari ræða verkefnið og vinnuna
Þróun og framtíðarsýn lögreglumenntunar
Það sem stóð mest upp úr í huga Andys var hvernig heimsókn Landans skapaði vettvang fyrir almenning til að fá innsýn í þróun lögreglumenntunar á Íslandi. „Þetta var einstakt tækifæri til að sýna gæði námsins og hvernig það þjónar breyttum þörfum íslensks samfélags,“ segir hann. Hann bendir einnig á hversu ánægjulegt var að sjá hversu faglegir allir þátttakendur voru – stúdentar, leikarar, kennarar og sérfræðingar frá lögreglunni.
Aðspurður um stöðu og framtíð lögreglufræðinámsins segir Andy að námið sé stöðugt í þróun. „Lögreglustarf er síbreytilegt og námskráin okkar þarf að endurspegla þær breytingar sem verða í samfélagi, tækni og löggjöf,“ segir hann.
Árið 2026 verður tíu ára afmæli samstarfs Háskólans á Akureyri og Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu. Upphaf samstarfsins var mikilvægur áfangi í að færa lögreglumenntun á háskólastig á Íslandi, í anda þróunar á Norðurlöndum og í Bretlandi. Fram undan eru spennandi breytingar: Aukin notkun stafrænnar tækni í kennslu, þróun á herminámi, áhersla á samfélagsmiðaða löggæslu og aukið alþjóðlegt samstarf.
„Markmiðið er að tryggja að íslenskir lögreglunemar séu vel undirbúnir fyrir fjölbreytt og síbreytilegt samfélag framtíðarinnar,“ segir Andy að lokum.