Nýr flutningabíll sem gengur bæði fyrir olíu og metangasi hefur verið tekinn í notkun á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þetta er fyrsti græni trukkurinn í flota Landflutninga en hann er bæði umhverfisvænni og eyðslugrennri en aðrir trukkar félagsins. Nýi flutningabíllinn er af gerðinni MAN TGX 26.480 og gengur fyrir bæði fyrir dísilolíu og metani. Þannig lágmarkast mengun frá honum um leið og notaður er innlendur orkugjafi í bland en vélin, sem er sex strokka, notar alltaf díselolíu en hlutfall metans getur mest orðið um 50% af heildar orkuþörfinni. Nýi bílinn verður í ferðum á milli Reykjavíkur og Akureyrar og ef hann reynist vel áforma Landsflutningar-Samskip að fjárfesta í fleiri slíkum bílum, í samræmi við umhverfisstefnu félagsins.
Bíllinn kostar með öllum búnaði, þ.á.m. þráðlausu símkerfi, um 31 milljón króna með virðisaukaskatti. Hann er um 14.5 tonn og getur tekið um 30 kör af fiski og er heildarþyngdin þá um 26 tonn. Loftfjaðrir eru á öllum öxlum bílsins og vigt sem segir til um heildarþunga bæði bíls og tengivagns. Einnig er hraðastilling í bílnum sem tryggir að honum er aldrei ekið yfir 90 km á klukkustund og á gírkassanum er 700 hestafla vökvabremsa, tengd hraðastilli (cruise-control), sem getur haldið bílnum á jöfnum hraða niður brekkur.