Kynningurfundur um nýgerðan kjarasamningi í Hofi í kvöld

Í kvöld kl. 20.00 verður kynningarfundur í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri um nýjan kjarasamning á almenna markaðinum sem skrifað var undir 5. maí sl. Einnig verða haldnir fundir í Fjallabyggð, í Hrísey og á Dalvík í vikunni. Enn á eftir að semja fyrir þá sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum.  

„Ég er ánægður með þennan samning, hann er í þeim anda sem við lögðum upp með eftir að hafa gert könnun meðal okkar félagsmanna sem um 1200 manns tóku þátt í," sagði Björn Snæbjörnsson formaður Einingar Iðju um nýgerðan kjarasamning milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins í Vikudegi. Björn nefnir að mörg þeirra markmiða sem fram voru sett hafi náðst í samningum og nefnir m.a. að þeir sem lægstu launin hafa fái mest út úr þessum samningi. „Ég er ánægður með að okkur tókst að ná fram auknum kaupmætti fyrir þá sem eru á lægstu laununum, enda er neyðin þar mest," segir Björn. Þá nefnir hann einnig að í yfirlýsingu ríkisstjórnar væri tekið fram að verðtryggja eigi persónuafsláttinn, en þessi tvö atriði voru á meðal þeirra sem félagsmenn lögðu áherslu á í sinni kröfugerð.

Eingreiðsla upp á 50 þúsund krónur sem greidd verður út um næstu mánaðamót, hækkun orlofsuppbótar í júlí og desember er nýlunda í kjarasamningum að sögn Björns. Hann segir um að ræða leiðréttingu aftur í tímann, samningagerð hafi dregist úr hömlu og líta megi á eingreiðsluna sem eins konar uppbót fyrir tímabilið mars, apríl og maí og uppbót á orlofsgreiðslur síðar á árinu fyrir mánuðina janúar og febrúar. „Það er margt í þessum samningum til hagsbóta fyrir launþega og við hvetjum fólk til að kynna sér hann gaumgæfilega," segir Björn.  Eitt þeirra atriða er að því takmarki verkalýðshreyfingarinnar um að lágmarkslaun nái 200 þúsund krónum verður náð 1. febrúar 2013.

Nýjast