Kvennatvíeyki stýrir N4

Hilda Jana og María.
Hilda Jana og María.

Stjórn N4 hefur ráðið Maríu Björk Ingvadóttir sem framkvæmda- og rekstrarstjóra og Hildu Jönu Gísladóttir sem framkvæmda- og sjónvarpsstjóra. Þær hafa báðar unnið hjá fyrirtækinu um nokkurra ára skeið og í sameiningu stýrt N4 undanfarna tvo mánuði með mjög góðum árangri, er segir í tilkynningu.

Kristján Kristjánsson lét sem kunnugt er skyndilega af störfum sem framkvæmdastjóri í vor og hafa þær Hilda Jana og María séð sameiginlega um framkvæmdastjórn síðan þá. 

N4 hefur lagt áherslu á að hafa jafnvægi í umfjöllun sinni milla karla og kvenna. Jón Steindór Árnason,formaður stjórnar N4 segir að með ráðningu kvennanna vilji stjórnin undirstrika kraft kvenna og trú á hæfni Hildu Jönu og Maríu Bjarkar og þykir stjórninni það sérstaklega við hæfi á þessu ári, þegar þess er minnst að 100 ár eru liðin frá því íslenskar konur fengu kosningarétt.

„Stefna N4 er metnaðarfull og miðar að því að bjóða áhorfendum sínum upp á vandað efni frá öllum landshlutum, auk þematengdra þátta eins og þátta um orkumál og málefni landbúnaðar og sjávarútvegs. Við vitum að fyrirtækið er í góðum höndum kvennanna tveggja“ segir Jón Steindór. 

María Björk hefur áralanga reynslu af starfi í fjölmiðlum, m.a. sem starfsmaður RÚV auk mikillar reynslu af rekstri á opinberum markaði og einkamarkaði. Áður en hún hóf störf hjá N4 var hún í all mörg ár sviðsstjóri yfir frístundum Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Þar áður stofnaði hún og rak Kaffi Krók. María Björk er menntuð sem félagsráðgjafi.

Hilda Jana hefur starfað í fjölmiðlum síðustu 15 árin, m.a. sem fréttamaður á Aksjón, RÚV og Stöð 2. Frá árinu 2009 hefur hún starfað á N4 sem dagskrárstjóri og hefur átt drjúgan hlut í því að koma fyrirtækinu á þann stað sem það er í dag. Hún var árið 2014 tilnefnd til Edduverðlaunanna í flokki sjónvarpsmanns ársins og árið á undan var þáttasería sem hún gerði „Auðæfi hafsins“ tilnefnd til Edduverðlauna í flokki frétta- og viðtalsþátta ársins. Hilda Jana er kennaramenntuð frá Háskólanum á Akureyri.

Hilda Jana og María Björk segjast vera þakklátar fyrir það traust sem stjórn N4 sýnir þeim og að fá tækifæri til að gera N4 að enn sterkari fjölmiðli en hann er í dag og ætla að sjálfsögðu ekki að hverfa af skjánum við þessar breytingar. Þær ætla að sinna landsbyggðamálum áfram af krafti, með traustu og skapandi starfsfólki, áhugasömum áhorfendum og ekki síður fjölmörgum einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum um land allt.

„Ég er viss um að okkur tekst að gera góðan miðil enn sterkari“ segir Maria Björk. Hilda Jana tekur í sama streng og segir „Sú jákvæðni sem við finnum fyrir gefur okkur byr undir báða vængi og fer ég nú full eldmóðs í næsta æviskeið N4“

Fjölmiðlafyrirtækið N4 nýtur vaxandi vinsælda meðal almennings og leggur áherslu á umfjöllum um mannlífið á Íslandi og þann mikla fjölbreytileika sem þar blómstrar. N4 rekur sjónvarp, Dagsskrá og framleiðsludeild, en hjá fyrirtækinu starfa 17 manns.

 

 

 

 

Nýjast