Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Rauði krossinn og Sjóvá standa fyrir söfnun á brjóstahöldum og öðrum undirfötum í tengslum við Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ sem fram fer á morgun. Hlaupið hefst á Akureyri kl 11 og er farið frá Ráðhústorginu. Vegalengdir sem eru í boði á Akureyri eru 2 km og 4 km, en víðast hvar í nágrannasveitarfélögunum hefst hlaupið líka k 11, en upplýsingar um vegalengdir og hlaupastaði er hægt að fá hjá skipuleggjendum á viðkomandi stöðum.
Árlega velja skipuleggjendur Kvennahlaupsins eitt málefni tengt konum til að vekja sérstaka athygli á. Í ár var ákveðið að hvetja þátttakendur hlaupsins til að gefa nærföt í fatasafnanir hjálparsamtaka. Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum þá skilar nærfatnaður sér síður í hefðbundnum fatasöfnunum en annar fatnaður. Margir átti sig einfaldlega ekki á því að eftirspurn sé eftir þessum fatnaði.
Söfnuninni var hleypt af stokkunum í síðustu viku en hún mun standa út júní. Hægt er að koma með fatnaðinn á söfnunarstöðvar Rauða krossins og í Sorpu en einnig verður tekið við brjóstahöldunum við rásmörk Kvennahlaupsins um allt land á hlaupadaginn. Hlaupið verður á um 90 stöðum um allt land.