Krúttlegasta hjólamót árins haldið á Akureyri á sunnudaginn

Krónan, Akureyrardætur og Hjólreiðafélag Akureyrar standa fyrir hjólamóti fyrir krakka á aldrinum 2 …
Krónan, Akureyrardætur og Hjólreiðafélag Akureyrar standa fyrir hjólamóti fyrir krakka á aldrinum 2 til 12 ára og fer mótið fram í Kjarnaskógi sunnudaginn 18. maí næstkomandi

Krónan, Akureyrardætur og Hjólreiðafélag Akureyrar standa fyrir hjólamóti fyrir krakka á aldrinum 2 til 12 ára og fer mótið fram í Kjarnaskógi sunnudaginn 18. maí næstkomandi. Um er að ræða fyrsta hjólamótið sem Krónan heldur á Akureyri en mótið er haldið að fyrirmynd Krónumótsins í Öskjuhlíð sem er orðinn árlegur viðburður í september ár hvert. Skráning á mótið er hafin og eru öll börn velkomin.

Mótið hefst formlega klukkan 10 þegar yngsta kynslóðin fer af stað á sparkhjólum og í kjölfarið taka eldri flokkar við. Hjólakapparnir í BMX BRÓS mæta og sýna hjólalistir sínar við Kjarnakot klukkan 11:30 og verður Krónuhjólið á staðnum þar sem hægt verður að næla sér í ávexti.

Bjarki Kristjánsson, verslunarstjóri Krónunnar á Akureyri er afar spenntur að færa hjólamót Krónunnar til Akureyrar þar sem viðburðinum hefur verið vel tekið á höfuðborgarsvæðinu. „Frá því að við opnuðum fyrstu verslun Krónunnar á Akureyri árið 2022 höfum við hjá Krónunni lagt mikla áherslu á að stuðla að aukinni lýðheilsu og hreyfingu meðal ungu kynslóðarinnar hér á svæðinu og t.a.m. veitt árlega samfélagsstyrki til félaga og samtaka sem huga að þessum mikilvæga málaflokki á Norðurlandi. Það er því gaman að geta fært hjólamótið, sem haldið er árlega í Reykjavík, yfir til Akureyrar í góðu samstarfi við Akureyrardætur og Hjólreiðafélag Akureyrar. Við hvetjum því foreldra og forráðamenn til að skrá börnin sín, mæta með hjól og hjálm og verja deginum með okkur í Kjarnaskógi þar sem markmiðið er ávallt að hafa gaman og vera með. Ég mun allavega mæta með dóttur mína sem er virkilega spennt að fá að spreyta sig á brautinni,“ segir Bjarki.

Í hjólaklúbbnum Akureyrardætur eru hjólandi stelpur á öllum aldri og stendur hann fyrir ýmsum hjólaviðburðum á Norðurlandi. Akureyrardóttirin Thelma Rut Káradóttir segir að það sé virkilega gaman að fá að taka þátt í þessu móti með Krónunni en hjólreiðar séu mjög vinsælar á Akureyri, enda aðstaðan til iðkunar íþróttarinnar með allra besta móti.

„Það er afar ánægjulegt að Krónumót Akureyrardætra og Hjólreiðafélags Akureyrar sé loks orðið að veruleika hér fyrir norðan. Við Akureyrardætur höfum tekið þátt í mörgum hjólaviðburðum á svæðinu en aldrei áður staðið að móti fyrir svo unga hjólagarpa,“ segir Thelma og bætir við að það sé aldrei of snemmt að byrja að hjóla. „Nú er tíminn til að skrá börnin, sækja hjólin úr geymslunni, yfirfara dekk og annan búnað og koma með okkur á skemmtilegasta hjólamót landsins í Kjarnaskógi, segir Thelma.“

Athygli er vakin á því að hjálpardekk og rafmagnsknúin hjól er ekki leyfð og þurfa öll börn að nota hjálm. Krónan mun gefa öllum þátttakendum mótsins gjöf, auk þess sem þau fá verðlaunapening að móti loknu. Skráning fer fram á Abler og kostar 2.300 krónur að taka þátt.

Þetta segir í aðsendri tilkynningu

Nýjast