Þá hefur Kristján Þór ákveðið að gefa ekki kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna bæjarstjórnarkosninga á Akureyri í maí nk. Bæjarstjórn samþykkti lausnarbeiðnina með 11 samhljóða atkvæðum. Bréf Kristjáns Þórs er svohljóðandi:
"Ágæta bæjarstjórn
Ég hef sinnt störfum fyrir sveitarfélög frá árinu 1986 og þar af verið bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Akureyrar
frá því í júní 1998. Á þeim tíma hef ég að auki setið í fjölmörgum ráðum og nefndum fyrir
Akureyrarbæ.
Þessi störf hafa gefið mér fjölmörg tækifæri til þess að vinna að framgangi hagsmunamála Akureyringa og sveitarfélaga.
Ég hef í störfum mínum fyrir Akureyrarbæ lagt mig fram um að sinna þeim af trúmennsku og litið á það sem meginskyldu
mína að leita þeirra leiða sem færar eru hverju sinni til að óskir og ábendingar bæjarbúa um eflingu bæjarfélagsins nái
að verða að veruleika.
Vegna ófyrirséðra anna í störfum Alþingis á þessu ári og fyrirsjáanlegum miklum önnum strax í upphafi næsta árs
hef ég nú ákveðið að óska eftir lausn frá störfum í bæjarstjórn Akureyrar frá og með næstkomandi
áramótum. Enn fremur hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna
bæjarstjórnarkosninga á Akureyri í maí nk.
Ég óska Sjálfstæðisflokknum góðs gengis í næstu bæjarstjórnarkosningum. Bæjarmálaflokkur
sjálfstæðismanna hefur verið samfellt í forystu bæjarfélagins frá árinu 1998 og á þeim tíma haft forgöngu um
gríðarmiklar breytingar og margvísleg framfaramál til eflingar búsetuskilyrða í höfuðborg hins bjarta norðurs. Á þessum
árum hefur víða verið lyft Grettistaki í uppbyggingu íþrótta og tómstundamála, menningarmála, félagsþjónustu
og ekki hvað síst á sviði grunn ? og leikskóla bæjarfélagsins.
Þessi ár hafa verið mér mikils virði og ég hef kynnst fjöldanum öllum af frábæru fólki, jafnt starfsmönnum Akureyrarbæjar
sem öðrum íbúum og fólki víða um land og lönd.
Með bestu óskum um farsæld til handa ,, Höfuðborg hins bjarta norðurs."