Kristján Kristjánsson dagskrárgerðarmaður hjá sjónvarpsstöðinni N4 hefur verið ráðinn ritstjóri Vikudags og framkvæmdastjóri Útgáfufélagsins ehf., sem gefur blaðið út. Kristján tekur við af alnafna sínum Kristjáni Kristjánssyni og er væntanlegur til starfa síðar í sumar. Nýi ritstjórinn er Akureyringur í húð og hár en hann hefur starfað við þáttagerð og framleiðslu sjónvarpsefnis hjá N4 síðastliðið eitt og hálft ár. Þá hefur hann starfað við bókaútgáfu og framleiðslu sjónvarpsefnis í 12 ár og var lausapenni hjá Fréttablaðinu um tíma. Kristján lærði leikstjórn og frásagnartækni í Osló. Hann hefur víðtæka reynslu í fjölmiðlun og framleiðslu og einnig í markaðssetningu og ritstjórn í tengslum við bókaútgáfu og auglýsingagerð. Það leggst vel í mig að taka við Vikudegi. Þetta er spennandi verkefni, blaðið er með stóran og traustan lesendahóp og vonandi verður hægt að bæta í. Aðalatriðið er að sinna lesendum eins vel og kostur er og vona ég að innkoma mín verði útgáfunni til sóma, sagði nýi ritstjórinn.
Kristján fráfarandi ritstjóri, hefur starfað við fjölmiðlun á Akureyri frá árinu 1985, fyrst á Degi í 10 ár og í framhaldinu á Akureyrarskrifstofu Morgunblaðsins í rúm 10 ár. Hann hefur ritstýrt Vikudegi síðastliðin sex og hálft ár en hyggst nú snúa sér að öðrum viðfangsefnum.