Rakel Hönnudóttir skoraði eina mark Þórs/KA eftir varnarmistök í vörn KR strax í upphafi seinni hálfleiks og minnkaði þar muninn í 3-1, eftir að staðan í hálfleik hafi verið 3-0. Í fyrri hálfleik sótti KR án afláts og mátti telja sóknartilraunir Þórs/KA á fingrum annarrar handar. Síðari hálfleikur var svipaður, KR-ingar pressuðu stíft allan tíman og mátti Þór/KA sín lítils gegn þessum sterka andstæðingi. Ekki bætti úr skák þegar Rakel Hönnudóttir þurfti að fara meidd útaf þegar um 20 mín lifðu leiks. Meiðsli hennar eru þó ekki talin mjög alvarleg.
KR bætti við þremur mörkum í seinni hálfleik og urðu lokatölur því eins og áður sagði 6-1, KR í vil.
Lítið er hægt að segja um leik Þórs/KA til þess var andstæðingurinn einfaldlega of sterkur. Þær gáfust þó aldrei upp og börðust ágætlega, þó hefðu þær oft og tíðum getað haldið boltanum mun betur innan liðsins en raunin var. Liðið virtist hins vegar aldrei hafa trú á eigin getu til að spila boltanum og því fór sem fór.
Næsti leikur Þórs/KA er gegn Stjörnunni, leikur þar sem þær ættu að eiga mun meiri möguleika á stigum en í gærkvöldi.