Kostnaður á hvern ársnema í opinberu háskólum landsins er lægstur í Háskólanum á Akureyri, eða rúm ein milljón króna á ári. Þetta er heldur lægri upphæð en Háskóla Íslands, þar sem kostnaður á hvern ársnema er tæplega 1,1 milljón króna. Þetta kom fram í máli Stefáns B. Sigurðssonar rektors HA við setningu Atvinnu- og nýsköpunarhelgarinnar á Akureyri. Langflestir ársnemar eru við Háskóla Íslands eða rúmlega 8.800 talsins en í Háskólaum á Akureyri eru 1300 ársnemar. Í Listaháskólanum eru 383 ársnemar og kostnaður á hvern nemanda um 1,6 milljónir króna, í Háskólanum á Hvanneyri eru 290 ársnemar og kostnaður á hvern nemenda rúmlega 1,9 milljónir króna og í Háskólanum á Hólum eru 190 ársnemar og kostnaður á hvern nemanda rúmar 1,2 milljónir króna á ári. Stefán sagði að það myndi ekkert sparast við það að færa þessa 1300 nemendur HA inn í HÍ, eins og margir hafi talað um. Ef eitthvað er myndi kostnaður á hvern nemanda aukast.
Stefán fór einnig yfir það hvar hvar nemendur sem útskrifast hafa frá HA búa og starfa. Um 49% nemenda búa og starfa á Eyjafjarðarsvæðinu, um 26% búa og starfa annars staðar á landsbyggðinni og um fjórðungur býr og starfar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var eitt af því sem nýsköpunarfyrirtækið Háskólinn á Akureyri átti að gera og hefur tekist að gera.
Hann segir að þrátt fyrir niðurskurð í fjárveitingum hafi skólanum tekist að taka við fleiri nemendum, með stöðugri hagræðingu. Hann sagði að á síðustu árum hefði tekist vel til í að lækka skuldir HA. Árið 2006 skuldaði skólinn á fjórða hundrað milljónir króna en árið 2010 var skuldastaðan komin niður fyrir 50 milljónir króna. Ríkið kom að hluta til skólanum til aðstoðar árið 2008 en að öðru leiti hafa skuldir verið lækkaðar með hagræðingu og aðhaldi innan skólans.
Stefán fór einnig yfir framtíðarsýn skólans en markmiðið er að vera sjálfstæður alþjóðlegur háskóli, í samstarfi við aðra háskóla. Hann nefndi sérstaklega náið samstarf við Háskólann á Hólum, þekkingarsetur og símenntunarmiðstöðvar í því sambandi. Áherslan væri á blöndu staðarnáms, lotunáms og fjarnáms, nám óháð stað og stund. Stefán sagði að sérstaða skólans fælist í kennslu og rannsóknum í lögfræði, með áherslu á heimskautarétt, norðurslóðafræði, sjávarútvegsfræði, iðjuþjálfunarfræði og skólaþróun.