Kona hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmd í 30 daga fangelsi fyrir líkamsárás gagnvart annarri konu á veitingastað á Akureyri á síðasta ári. Konan greip í hár hinnar og skellti síðan andliti hennar allt að fimm sinnum í borðplötu. Síðan sló hún konuna í andlitið. Sú sem fyrir árásinni varð fékk glóðarauga og ýmsa áverka á höfði og hálsi. Árásarkonan játaði skýlaust fyrir dómi. Með tilliti til þess og að hún hefur ekki áður komist í kast við lögin var ákveðið að dæma hana í 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Þá var henni gert að greiða 102 þúsund krónur í málskostnað.