Komum á göngudeild geðdeildar hefur fjölgað um 73% á átta árum

Göngudeild geðdeildar er fyrir löngu komin að þolmörkum og biðlisti lengist stöðugt. Mynd: Hörður Ge…
Göngudeild geðdeildar er fyrir löngu komin að þolmörkum og biðlisti lengist stöðugt. Mynd: Hörður Geirsson.

Komum í meðferð á göngudeild geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri hefur fjölgað umtalsvert. Þær voru 2.650 árið 2003, 3.550 árið 2007 og 4.580 árið 2011, eða aukning um 73% á 8 árum. Á þessu tímabili hefur meðferðaraðilum (geðlæknum, sálfræðingum, iðjuþjálfum og hjúkrunar-fræðingum) ekki fjölgað. Við lokun dagdeildar geðdeildar að Skólastíg 7 í sparnaðarskyni í ársbyrjun 2009 töpuðust 3 stöðugildi. Göngudeild geðdeildar er fyrir löngu komin að þolmörkum. Biðlisti eftir þjónustu lengist stöðugt. Að baki aukinni eftirspurn eftir meðferð er að verulegu leyti ungt fólk á aldrinum 17 til 29 ára.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Sjúkrahússins á Akureyri fyrir síðasta ár en þar segir ennfremur: Árlegum innlögnum á bráðalegudeild geðdeildar hefur fjölgað úr 216 árið 2003 í 297 árið 2011, eða um 37%. Meðallegutími hefur styst á þessum árum úr 13,4 dögum í tæplega 10 daga. Fleiri einstaklingar fá þannig þjónustu á styttri tíma. Hjúkrunarstöðum hefur þó ekki fjölgað frá opnun legudeildarinnar 1986 þegar innlagnir voru 100-120 á ári. Legudeildin er fullnýtt og er hvorki rými né sérhæfður mannafli til að auka afköst hennar. Manneklu fylgir álag og langvarandi þreyta starfsfólks, hætta á að yfirsýn minnki og auknar líkur á neikvæðum atvikum tengdum sjúklingum og starfsfólki. Minnt skal á að hlutfall nauðungarvistaðra sjúklinga á geðdeild hefur verið svipað og á geðsviði LSH, eða um 3% vistana. Slík verkefni eru bæði krefjandi og tímafrek og kalla jafnan á tímabundna aukningu mannafla. Eftirspurn eftir þjónustu geðlækna vegna bráðakoma á slysadeild hefur tvöfaldast síðasta áratuginn.

Fagfólk geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri hefur óskað eftir fjölgun stöðugilda til að geta annað núverandi eftirspurn eftir vandaðri meðferð geðsjúkra,geraúrbætur varðandi öryggi sjúklinga og starfsfólks á bráðalegudeildinni og efla sérstaklega þjónustu dag- og göngudeildar við ungt fólk. Ennfremur til að geta eflt samvinnu við aðrar sjúkrahúsdeildir og við félagsþjónustu og heilsugæslu á upptökusvæði sjúkrahússins. Sparnaðarkröfur á Sjúkrahúsið á Akureyri síðustu árin hafa gengið nærri allri starfsemi þess. Ekki finnast því möguleikar innan sjúkrahússins á tilfærslum fjármuna til að koma til móts við brýnar þarfir geðdeildarinnar um fjölgun stöðuheimilda. Aðeins verður unnt að bæta framangreinda þjónustuþætti á geðdeildinni með því að sérstök fjárveiting komi til.

Nýjast