Maðurinn sem fannst meðvitundarlaus í Sundlaug Akureyrar að morgni fimmtudags í síðustu viku er kominn úr öndunarvél samkvæmt upplýsingum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hann dvelur enn á gjörgæsludeild sjúkrahússins en verður von bráðar fluttur á almenna deild. Maðurinn er á níræðisaldri og var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var endurlífgaður.
Ekki er vitað hvernig atvikið bar að eða hversu lengi maðurinn lá á botni sundlaugarinnar. Líklegt er þó talið að maðurinn hafi fengið hjartaáfall en hann er hjartasjúklingur með gangráð.
Krakkar hjá Sundfélaginu Óðni voru á æfingu þegar atvikið átti sér stað og urðu varir við manninn. Þeir gerðu öðrum sundlaugargestum viðvart sem drógu manninn upp á sundlaugarbakkann.