Komasso!

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson skrifaði í gær pistil á Facebookvegg sinn sem vakið hefur mikla athygli og umræður, vefurinn fékk góðfúslegt leyfi fyrir birtingu þessa pistils hér.
 
Íslendingar hafa tilhneigingu til þess að flækja lausnir við algengum vandamálum sem búið er að leysa í öðrum löndum. Nýjasta dæmið er mönnun og umbun lækna á landsbyggðinni.
 
Neyðaróp berst nú frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, varasjúkrahúsi landsmanna, en nýlega varð ljóst að landlæknisembættið ætlaði ekki að endurnýja samninga við sérgreinalækna við sjúkrahúsið. Eins og skilja má vandamálið hafa þeir verið að fá til sín aukasporslur með verktakafyrirkomulagi, sem hefur gert þeim kleift að vinna víðar en á SAk. Með þessu “frjálsræði” er þeim umbunað sérstaklega að vinna utan höfuðborgarsvæðisins.
 
Það er vel þekkt í nágrannalöndunum að erfiðlega getur gengið að manna stöður þeim mun fjær höfuðborgarsvæði sem þær eru. Þetta hafa menn leyst á praktískan hátt með tekjuskattsívilnunum, niðurfellingu námslána, búsetustuðningi, sérkjörum á íbúðalánum etc etc gegn því að vinna sem sérfræðingar utan höfuðborgarsvæðis og fá það þannig umbunað fjárhagslega, auk þess sem það er ugglaust mjög gefandi líka.
 
Á sama hátt tókust menn á við of mikla þéttingu fólks og fjármagns á Oslóarsvæðið í Noregi, þegar fólksflutningar þangað tæmdu mörg gjöful svæði í Noregi, auk þess sem innflytjendum var að mestu safnað saman á það svæði. Staðan var orðin þannig að húsnæðisverð hafði hækkað gríðarlega í Osló, umferðarteppur einkenndu borgina og ungt fólk gat sífellt verr komist inn á húsnæðismarkaðinn. Hljómar þetta kunnuglega?
 
Norðmenn réðust í markvissar aðgerðir með pólitískri stefnu og ákvörðunum, sem miðuðu að því að dreifa ríkisstofnunum um Noreg allan. Þetta var gert með því að m.a. veita skattaívilnanir til fyrirtækja á ákveðnum svæðum, falla frá innheimtu námslána til ákveðinna stétta, innheimta lægri skatta annars staðar en á Oslóarsvæðinu og ráðast í innviðafjárfestingar um allan Noreg til að jafna skilyrði til atvinnuuppbyggingar. Nauðsynleg skilyrði til atvinnuuppbyggingar eru m.a. vegasamgöngur, aðgangur að rafmagni, millilandasamgöngur og auknir menntamöguleikar á heimaslóð.
 
Þessi stefna og ákvarðanir eru taldar hafa orðið til þess að ofursamþjöppun fólks, fyrirtækja, stofnana og fjármagns náði betra jafnvægi og fleiri svæði innan Noregs náðu styrk sínum og áður deyjandi svæði hófu að vaxa að nýju. Viðleitni stjórnvalda undanfarin ár (B, D, V, M, S) hefur litlu skilað og meira hefur sést af einhverjum “spretthópum” og “skyndiátökum” sem í reynd hefur verið líknandi meðferð við vandamálum sem betur verða leyst með eðlilegum viðskiptalegum hvötum, eins og í gegnum skattkerfið. Byggðastefna undanfarinna ára hefur einkennst af þverpólitísku getuleysi.
 
Margir frjálshyggjuvinir mínir munu ugglaust hrópa upp yfir sig að að markaðurinn eigi bara óheft að ráða. Svo einfalt er þetta ekki. Ef það væri, byggju allir landsmenn í fjölbýlishúsum á einum stað á landinu (ekki endilega Reykjavík). Stærstur hluti vöruútflutningstekna landsmanna er aflað á svæðum sem fá lítið eða ekkert frá ríkinu til baka, á sama tíma og ríkið hefur fjárfest mest á höfuðborgarsvæðinu.
 
Stór hlutdeild ríkisins í heildarfjárfestingu á Íslandi þýðir einfaldlega að það hefur gríðarlegar afleiðingar hvernig og hvar sú fjárfesting fer fram. Í augnablikinu er t.d. um 500 milljarða fjárfesting á höfuðborgarsvæðinu, sem augljóslega trekkir til sín aðra fjárfestingu og vinnuafl þannig að úr verður staðbundin sveifla sem er í engum takti við afganginn á landinu. ´
Núverandi “plan” virðist vera að skattleggja útflutnings-atvinnuvegina og landsbyggðina í drep, soga þaðan tekjur, skera niður þjónustu og enda á því að svipta svo landsbyggðina atkvæðum til alþingiskosninga, svona svo þessi kapall gangi til enda.,
 
Ég held við viljum öll halda landinu í byggð og svipta ekki frændur og frænkur víða um land lífsbjörg eða eðlilegum aðgangi að grunnþjónustu. Það er líka vondur bissness, hreinlegast að pissa í skóinn sinn, að taka skammtíma samþjöppun fram yfir arðbærari uppbyggingu til framtíðar um land allt. Einungis með því að nýta fjölbreytilega kosti landsins alls munum við uppskera mest.
 
Gerum ekki “sér-íslensk” vandamál úr kunnuglegri þróun hjá öðrum þjóðum. Nýtum okkur reynslu annarra og beitum þeim aðferðum sem þar hafa virkað.
 
Komasso!

Nýjast