Knattspyrnufélag Akureyrar, KA, fagnar 80 ára afmæli í dag en félagið var stofnað 8. janúar 1928. Árið 2008 verður 80 ára
afmælisár hjá Knattspyrnufélagi Akureyrar og í dag, á sjálfan afmælisdaginn, verður opið hús í KA-heimilinu milli kl. 17 og
19 þar sem boðið verður upp á veitingar, tónlistaratriði, skrifað verður undir styrktarsamninga og lýst kjöri Íþróttamanns
KA árið 2007. Dagskránni lýkur með flugeldasýningu.
Föstudaginn 11. janúar milli kl. 16 og 19 verður Páll Óskar Hjálmtýsson með fjölskylduskemmtun í KA-heimilinu, þar sem aðgangur
er ókeypis. Páll Óskar verður síðan með dansleik fyrir 16 ára og eldri frá kl. 23 að kvöldi föstudagsins 11. janúar.
Aðgangseyrir kr. 1000. Laugardaginn 12. janúar verður síðan afmælishátíð í KA-heimilinu frá kl. 19.30. Veislustjóri verður
Friðfinnur Hermannsson. Ræðumaður kvöldsins verður Ragnar Gunnarsson, gallharður KA-maður og Skriðjökull. Flutt verða ávörp og KA-menn
heiðraðir fyrir störf sín fyrir félagið. KA-bandið spilar fyrir hátíðargesti og Óskar Pétursson tekur lagið. Þá mun
Páll Óskar Hjálmtýsson spila fyrir dansi. Til viðbótar við afmælishaldið í janúar er stefnt að
fjölskylduhátíð á KA-svæðinu í júní í sumar og einnig er gert ráð fyrir að útbúnir verði
sérstakir minjagripir vegna afmælisársins.