Klippt á borða í tilefni af beinu tengiflugi frá Akureyri

Flugmaðurinn og flugstjórinn í fyrsta beina tengifluginu fengu sér líka tertusneið.
Flugmaðurinn og flugstjórinn í fyrsta beina tengifluginu fengu sér líka tertusneið.

Nú fyrir stundu flaug Icelandair fyrsta flug sitt frá Akureyri til Keflavíkur sem gerir norðanmönnum kleift að komast nánast beina leið til helstu áfangastaða Icelandair í Evrópu og Bandaríkjunum. Ef þessu tilefni var klippt á borða í flugstöðinni á Akureyrarflugvelli og auk þess boðið upp á tertu. Þau voru tvö sem klipptu á borðann, annars vegar Guðrún Sigurðardóttir, íslenska kona búsett í Svíþjóð og hins vegar þýskur ferðalangur búsettur í Sviss, Sven Adolph að nafni. Bæði voru þau á leið til síns heima með tengifluginu frá Akureyri. Seinni partinn í dag, eða kl. 17.10 kemur  flugvélin til baka frá Keflavík með tæplega 30 farþega, aðallega erlenda ferðamenn.

Viðskiptavinir Icelandair bóka flugið hjá Icelandair og innrita sig alla leið á áfangastað. Flogið verður fjórum sinnum í viku til 27. ágúst, á mánudögum, fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum og tvisvar í viku eftir það til 30. september á fimmtudögum og sunnudögum. Gert er ráð fyrir að um 2500 farþegar fljúgi þessa leið í sumar og að stærstur hluti þeirra, um 80%, verði erlendir ferðamenn sem taldir eru nær hrein viðbót við þá ferðamenn sem fyrir eru. Búist er að því að Danir, Bretar, Svíar og Þjóðverjar verði fjölmennastir í hópi þessara ferðamanna.

Tenging við helstu áfangastaði Icelandair

Brottför frá Akureyrarflugvelli verður klukkan 14.30 og lending á Keflavíkurflugvelli klukkan 15.20. Tímasetningin gerir það að verkum að fjölmargir áfangastaðir Icelandair liggja vel við þessu tengiflugi, til dæmis London, Kaupmannahöfn, Frankfurt, Amsterdam, Brussel, Stokkhólmur og Osló, auk þess sem það eru tengingar á ýmsa áfangastaði í Norður-Ameríku. Akureyrarflugið er bókanlegt sem hluti af flugi Icelandair til og frá Íslandi og mun félagið leigja Fokker 50 flugvél af systurfyrirtækinu Flugfélagi Íslands til þess.

 

Nýjast