Sjómannadeild Framsýnar hefur samþykkt að vísa kjaradeilu félagsins við Svæðisfélagið Klett, félags smábátaeigenda frá Ólafsfirði að Tjörnesi til Ríkissáttasemjara. Um er að ræða kjarasamning fyrir sjómenn á smábátum að 15 brúttótonnum á Húsavík. Viðræður samningsaðila hafa staðið yfir í nokkra mánuði með hléum. Sjómannadeild Framsýnar telur fullreynt að ná samningi nema með aðkomu Ríkissáttasemjara. Þess vegna samþykkti stjórn Sjómannadeildar Framsýnar á fundi miðvikudaginn 16. maí að vísa málinu til Ríkissáttasemjara. Sjómannadeildin leggur mikið upp úr því að ná kjarasamningi enda slíkur samningur ekki til í dag sem er ólíðandi með öllu, segir í fréttatilkynningu frá Framsýn.