Fyrir liggja drög að þjónustusamningi til eins árs um tímabundna meðhöndlun á köttum þar sem gert er ráð fyrir að Kisukot verði áfram starfrækt við Löngumýri á Akureyri svo sem verið hefur í rúman áratug.
Bæjarráð samþykkti árið 2023 að hefja samningaviðræður við Kisukot þannig að starfseminni verði komið fyrir í húsnæði sem uppfyllir það að fá starfsleyfi.
Ragnheiður Gunnarsdóttir sem rekur Kisukot á heimili sínu segir að svo virðist sem lítil leit hafi verið gerð að hentugu húsnæði fyrir starfsemina. Bærinn eigi heldur ekki sjálfur húsnæði þar sem hægt sé að koma Kisukoti fyrir.
Flestir kettir og mestur kostnaður yfir sumarið
Ragnheiður er oft með um eða yfir 15 ketti á heimili sínu. Hún segir að rólegt hafi verið undanfarið en til standi að reyna að ná köttum á tveimur stöðum í bænum í það minnsta á næstunni. Kostnaður við reksturinn er umtalsverður. Hann fer eftir því hversu margir kettir eru í Kisukoti hverju sinni. „Það eru yfirleitt flestir kettir hjá mér yfir sumarið og þá er kostnaðurinn mestur,“ segir hún. „Þessi niðurstaða að halda starfseminni áfram hér heima er auðvitað ekki óskastaða, en vonandi mun bærinn styrkja starfsemina í staðinn fyrir að útvega húsnæði.