Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, Örn Arnar Óskarsson, yfirmaður Byrs á Akureyri og Guðmundur Lárussson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Þingeyinga, afhentu Hjálparstarfi kirkjunnar á Akureyri að gjöf hálfa milljón króna sem ætluð er til kaupa á matvælum til styrktar skjólstæðingum hjálparstarfsins. Með þessari gjöf vilja samstarfsaðilar létta undir með þeim sem þurfa á aðstoð að halda fyrir jólin.
Jón Oddgeir Guðmundsson, sem veitti gjöfinni viðtöku, segir að þörf fyrir aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar hafi aukist mikið frá síðasta ári og framlag samstarfsaðila KEA kortsins komi því sannarlega að góðum notum. Jón Oddgeir segir að stofnunin reyni að liðsinna öllum sem til hennar leiti, auk þess að hafa samband við einstaklinga sem hún telur hjálpar þurfi.