Kaupmannasamtök Íslands hafa gefið Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) rafstillanlegan göngustiga að andvirði 2,5 m.kr. Stiginn er staðsettur við skurðdeild í aðalbyggingu SAk.
„Himinsæl og innilega þakklát.“
Kristín Margrét Gylfadóttir, þjónustustjóri endurhæfingar- og öldrunarlækningaþjónustu, segir um 1360 beiðnir berist sjúkraþjálfurum á bráðadeildum á ári og að þar séu veittar 6500 meðferðir. „Það verða því án efa fjölmargir sem geta nýtt sér þessa verðmætu gjöf.“ Segir Kristín. Ragnhildur Jónsdóttir, yfirsjúkraþjálfari, segir æfingastigann dýrmæta gjöf. „Göngustiginn hjálpar okkur að hjálpa fleirum, með mun öruggari hætti en áður. Það er mikilvægt að sjúklingar fái t.a.m. eftir aðgerð tækifæri til að æfa stiga að fara upp og niður stiga. Það getur reynst erfitt í hefðbundnum stiga, en með þessum æfingastiga er t.a.m. hægt að hafa þrepin mishá og þannig nýtist hann vel til æfinga og aðlögunar. Við erum himinsæl og innilega þakklát fyrir þessa óvæntu og gleðilegu gjöf.“ segir Ragnhildur.
„Frábært að geta stutt við Sjúkrahúsið á Akureyri.“
Ragnar Sverrisson, fulltrúi Kaupmannasamtaka Íslands, klippti á borða á æfingastiganum og þar með var hann formlega tekinn í notkun. „Það er auðvitað alveg frábært að geta stutt við starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri með þessum hætti, þá sér í lagi þar sem augljóst er að gjöfin mun nýtast vel.“ Segir Ragnar.
Hjónin Kristján Árnason og Sigríður Þórhallsdóttir, eigendur fyrirtækisins Marco, sem rekur styrking.is, sem selur göngustigann, mættu norður til að vera viðstödd afhendinguna. Líkt og aðrir viðstaddir voru þau hæst ánægð með að gjöfin væri komin í notkun.