"Ég geri þó ráð fyrir að opna með veglegri sýningu um páska. Ég er að vinna málverk inn í þá sýningu og nokkur þeirra eru reyndar komin upp hér á nýja staðnum. Síðan verður þetta húsnæði umgjörð í kringum það sem ég er að gera og Lilja kona mín mun hafa umsjón með því. Í tímans rás er svo jafnvel gert ráð fyrir því að Opera galleríið sendi mér sýningar og meistaraverk. Ég geri mér vonir um að fá hingað myndir eftir Picasso, Chagall, Miró og þessa stóru karla, því það er orðið svo stutt á milli mín og þeirra. Opera Galleríið er farið að sýna mín verk með verkum þessara karla víðs vegar um heiminn og til vors verð ég á sýningum á nokkrum stöðum í heiminum. Ég byrja í Singapore 17. apríl, hinn 1. maí opna ég gríðarstóra einkasýningu í New York, þá var ég valinn inn á sýningu í Monaco, þaðan fer ég niður til Dubai og enda svo þessa hrinu í Genf í Sviss."
Óli hefur sótt um leyfi til bæjaryfirvalda á Akureyri um frekari framkvæmdir í Gilinu. "Ég stefni að því að byggja 250 fermetra sýningarsal vestan við Kartöflugeymsluna. Mér finnst tónninn í bæjarkerfinu jákvæður og er því bjartsýnn á að þetta geti gengið eftir. Er ekki við hæfi að maður endi þetta með stæl en ég er upphafsmaður að gallerírekstri í bænum," sagði Óli sem stofnaði Gallerí Háhól í kringum 1980. "Sem gamall gallerírefur úr Gallerí Háhól fannst mér ég þurfa að ljúka ferlinum með listhúsi á Akureyri. Nú er það komið og ég tileinka þennan stað öllu því unga listafólki, sem eru málarar og hefur komið frá Myndlistarskólanum á Akureyri síðustu ár og er burðarvirkið í listsköpun á Íslandi í dag. Ég heiti á þetta fólk að láta mig vita af sér ef það þarf að sýna." Auk þess að sinna listagyðjunni hefur Óli verið atkvæðamikill hestamaður í bænum og hvernig skyldi sú vinna ganga með öllu því sem er að gerast í málverkinu. "Ég er kominn með mann í vinnu í búskapnum og er orðinn eins og fínu karlarnir og mæti bara á hestbak í nýpússuðum stígvélum."