Meirihluti skólanefndar Akureyrar samþykkti á fundi sínum í vikunni, tillögu bæjarstjóra þess efnis að ráða Karl Frímannsson skólastjóra í Hrafnagilsskóla, í starf fræðslustjóra til eins árs, frá 15. júní næstkomandi. Logi Már Einarsson S-lista og Helgi Vilberg Hermannsson A-lista sitja hjá. Alls bárust 11 umsóknir um stöðuna en 10 stóðu eftir þegar ákveðið var að birta nöfn umsækjenda en þeir voru: Arnfríður Kjartansdóttir, Akureyri, Geir Hólmarsson, Akureyri, Haraldur Dean Nelson, Reykjavík, Jóhann Hjaltdal Þorsteinsson, Akureyri, Karl Erlendsson, Akureyri, Karl Frímannsson, Eyjafjarðarsveit, Kristín Jóhannesdóttir, Akureyri, Lilja Margrét Hreiðarsdóttir, Garðabær, María Stefánsdóttir, Akureyri og Sara Halldórsdóttir, Akureyri.
Gerður Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi B-lista í skólanefnd lagði fram eftirfarandi bókun: "Ég mótmæli harðlega þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið við afgreiðslu þessa máls. Í samþykkt um skólanefnd 11. grein segir: "Bæjarstjóri ræður fræðslustjóra, sem er yfirmaður skóladeildar, að fenginni umsögn skólanefndar. Að fenginni umsögn skólanefndar ræður fræðslustjóri í umboði bæjarstjórnar skólastjóra grunnskóla sbr. lög um grunnskóla nr. 91/2008 og leikskólastjóra og aðra forstöðumenn sem undir hann heyra. Fræðslustjóri, skólastjórar og forstöðumenn ráða aðra starfsmenn." Skólanefnd hefur aldrei fjallað um þessa ráðningu og hefur því ekki fengið tækifæri til að gefa umsögn til bæjarstjóra. Skólanefnd fékk ekki upplýsingar um nöfn umsækjenda fyrr en þau birtust í fjölmiðlum. Afgreiðsla þessa máls er því alvarlegt brot á þeirri samþykkt sem skólanefnd ber að vinna eftir."