Karl nýr sveitarstjóri

Karl Frímannsson.
Karl Frímannsson.

Karl Frímannsson hefur verið ráðinn sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit og tekur við starfinu þann 1. ágúst.  Þetta var ákveðið á fundi sveitarstjórnar í gær. Karl hefur langa og farsæla reynslu af stjórnun í opinberum rekstri. Hann var skólastjóri Hrafnagilsskóla í 13 ár og undir hans stjórn hlaut skólinn Íslensku menntaverðlaunin árið 2007. Síðustu tvö árin hefur Karl starfað hjá Akureyrarbæ, fyrst sem fræðslustjóri og síðan þróunarstjóri. Karl lauk meistaraprófi frá Háskólanum á Akureyri árið 2010 í stjórnun menntastofnana en áður lauk hann prófi í íþróttafræðum við Íþróttaháskóla Noregs 1992.

Hann hefur setið í mörgum stjórnum félaga og stofnana og var nú síðast formaður stjórnar Hofs menningarfélags frá 2008-2012. Síðustu tvö árin hefur hann jafnframt unnið að verkefnum á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga,  kom að gerð kjarasamninga,  hélt námskeið fyrir skólastjórnendur á öllu landinu og sat í skólamálanefnd Sambandsins. Frá þessu er greint á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar.

Minnihlutinn ósáttur

Minnihlutinn sat hjá og harmar þau vinnubrögð sem meirihlutinn hefur viðhaft við ráðningarferli tilvonandi sveitarstjóra, en ekkert samráð hefur verið haft við minnihlutann við ráðninguna heldur hefur eingöngu verið um tilkynningar að ræða um það sem þegar hefur farið fram. Bendir minnihlutinn einnig á að búið sé að eyða töluverðum fjármunum sveitarfélagsins í ráðningarferli. Minnihlutinn stóð í þeirri trú að ferlið væri í faglegum höndum hjá Capacent ráðningum og að ráðningin myndi byggja á faglegu mati á þeim sem sóttu um starfið í góðri trú. Bókun þessi er tengist á engan hátt persónu verðandi sveitarstjóra.

Nýjast