Á laugardaginn kemur er von á virtum tónlistarmönnum í Hof á Akureyri sem sigla til bæjarins með skemmtiferðaskipinu Black Watch á vegum ferðaskrifstofunnar Kikrer Holidays. Tónlistarmennirnir skemmta farþegum um borð í skipinu en á Akureyri bregða þeir sér í land og halda tónleika kl. 18:00 og er aðgangur ókeypis meðan húsrúm leyfir.
Meðal flytjenda eru Einar Jóhannesson klarinettuleikari, Adam Walker flautuleikari og fyrsta flauta í Sinfóníuhljómsveit Lundúna, sellóleikarinn Alasdair Tair sem lék áður með Balcea Kvartettinum og píanóleikarinn Carole Presland.
Á efnisskránni eru meðal annars rómantísk verk eftir Schumann og Weber og dulúðlegur Debussy. Kynnir á tónleikunum er tónlistargagnrýnandinn og útvarpskonan Hilary Finch.