Kæru Eyktar um að stöðva samningsgerð við SS Byggi hafnað

Kærunefnd útboðsmála hefur hafnað kröfu Eyktar ehf., um að stöðva samningsgerð í kjölfar útboðs við lokafrágang á Íþróttamiðstöð Giljaskóla á Akureyri. Eykt kærði þá ákvörðun Fasteigna Akureyrarbæjar að ganga til samninga við SS-Byggi ehf. eftir útboð. Eykt átti lægsta tilboð í verkið í útboði á dögunum en SS Byggir það næsta lægsta. Við mat á tilboðum þótti tilboð SS Byggis það hagkvæmasta.  

Í kæru Eyktar var þess krafist að kærunefnd útboðsmála stöðvaði innkaupaferli Akureyrarbæjar, að kærunefndin felldi úr gildi ákvörðun bæjarins að ganga til samninga við SS Byggi, að kærunefndin léti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu bæjarins gagnvart fyritækinu og þá var gerð krafa um að bærinn greiddi kostnað Eyktar við að hafa kæruna uppi.

Akureyrarbæ var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir vali á tilboði. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Með bréfi, dags. 21. október 2009, krafðist bærinn þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað og að málinu yrði vísað frá.

Kærunefnd útboðsmála telur ekki efni til að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs en endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

Nýjast