Kæru Eyfirðingar

Ólína Freysteinsdóttir skrifar

Ég undirrituð sækist eftir setu á stjórnlagaþingi 2011. Það mun verða í senn ögrandi og gleðilegt verkefni að endurskoða Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem er að mínu mati þarft. Þó svo hún hafi gengt hlutverki sínu um áraraðir þá blasir nú við nýr veruleiki vegna stöðu okkar og ekki síður stöðu meðal þjóða . Það hrun sem varð hér á haustdögum 2008 sýnir skýrt að brotalamir voru í stjórnarháttum okkar ágæta lands ef einhver hefur velkst í vafa þess efnis þá er Rannsóknarskýrsla Alþingis staðfesting þar á.  Það fjárhagslega hrun sem varð er ekki alvarlegasti hluturinn, heldur miklu heldur það að orðið hefur alvarlegur trúnaðar- og siðferðisbrestur.

Þjóðin treystir ekki Alþingi, stjórnvöldum, eftirlitsstofnunum, ríkistjórn sem og forsetaembættinu. Þegar svo er komið er ljóst að ekki er farsælt að halda áfram sama veg. Við verðum að endurskoða tilveru okkar upp á nýtt. Í þeirri endurskoðun er mikilvægt að ólíkt fólk með sem margþætta reynslu og/eða menntun komi að því að móta nýja og betri framtíð þjóðinni til heilla. Nú hafa margir spekingar komið fram og talið okkur trú um að stjórnarskráin sé ágæt eins og hún er en aðrir líkja Íslandi við Þýskaland eftir hrun nasismans og það sé nauðsynlegt eins og þá að ný stjórnarskrá líti dagins ljós.  Hvað sem okkur finnst um það þá hefur staðið til að endurskoða stjórnarskránna lengi og nú verður það gert.

Það er trú mín  að flestir sem bjóða sig fram til stjórnlagaþings séu sammála því að þrískipting þurfi að verða raunveruleg. Þá eru aðrir mikilvægir þættir sem væntanlegum stjórnlagaþingmönnum er falið sem eru tilfinningaleg og ekki síður hagsmunamál, það ber helst að nefna þjóðarauðlindir okkar.

Þá eru einnig fjölmörg önnur atriði sem þarf að endurskoða og áhugi minn beinist að. Það er stjórnskipan, kjördæmaskipan og kosningar. Því miður hefur þátttaka almennings í stjórnmálum verið minnkandi og má leiða rökum að því að atvinnumannapólitík ráði þar stórum hluta um. Þá er markvisst reynt að flækja einfalda hluti með málskrúði þannig að almenningur veigrar sér við að kafa ofan í málin enda virðist það oft takmarkið. Farsælast er að hafa gegnsæi í stjórnmálum og málefnalega umræðu um hagsmunum þjóðarinnar sem og þátttöku hennar.

Margir telja að siðferðinu verði ekki breytt með stjórnarskránni, ég hef trú á að þeir sem haldi því á lofti séu málsvarar siðferðis og hagsmunaafla sem sigldu okkur í strand. Með öðrum orðum, afsökun fyrir að halda darraðardansinum áfram með eiginhagsmuni að leiðarljósi. Lýðræðiskerfið sem við búum við er ekki að skila því sem til var ætlast og því er þjóðfundur og stjórnlagaþing góður farvegur til að breytingar verð okkur öllum til hagsbóta.

Að mínu mati er mikilvægt að við snúum okkur að gildum þeim sem siðuð þjóð í okkar tilviki lýðveldið Ísland vill standa fyrir og að leiðarljósi þurfum við stjórnarskrá  sem tryggir mannréttindi og frelsi séu virt. Þá þarf að tryggja að  fulltrúar þjóðar okkar framkvæmi raunverulegan vilja okkar og gangist við þeirri ábyrgð sem þeir kjörnir eru til það er gæslu þjóðar vorrar.

Ég tek undir orð Njarðar P. Njarðvík : Göngum nú einu sinni hreint til verks. Hreinsum rækilega til í rústum þess lýðveldis sem hrundi - og stofnum svo nýtt lýðveldi með nýrri stjórnarskrá.

Með von um góða kjörsókn landinu okkar góða til heilla.

Ólína Freysteinsdóttir Akureyri, auðkennisnúmer: 9574

Nýjast