KA úr leik í blakinu

KA-menn eru úr leik í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla eftir tap gegn Stjörnunni í oddaleik liðanna í KA-heimilinu í gærkvöld. KA-liðið er ungt og reynslulítið og sást það bersýnilega í gær því leikmenn liðsins náðu sér einfaldlega ekki á strik í leiknum gegn reynslumiklu liði Stjörnunnar. Einnig munaði töluvert um fjarveru eins besta leikmanns KA, Davíðs Búa Halldórssonar sem spilaði ekki vegna veikinda.

Stjarnan vann fyrstu tvær hrinurnar 25-21 og 25-20. KA klóraði í bakkann með sigri í þeirri þriðju 25-23 en gestirnir tryggðu sér sigurinn í fjórðu hrinu 25-22 og þar með leiknum 3-1. Nánar er fjallað um leikinn í vikudegi á fimmtudag.

Nýjast