Heldur betur undarlegur knattspyrnuleikur var spilaður á Akureyrarvellinum í gær í 1. deild karla í fótbolta. KA-menn tóku þá á móti Grafarvogspiltum í Fjölni í leik sem þeir vilja eflaust gleyma sem fyrst enda töpuðu þeir honum 0-6 eftir að staðan í hálfleik var 0-0.
Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Fjölnir átti nokkuð fleiri marktilraunir, ekkert benti þó til annars en að leikurinn yrði í járnum allan tímann. Staðan í hálfleik 0-0.
Í síðari hálfleik var áfram jafnræði með liðunum fyrsta korterið en þó klúðraði Fjölnir vítaspyrnu á því tímabili. Þegar um 30 mín voru eftir af leiknum gerðist hins vegar eitthvað í leik KA sem verður eflaust seint útskýrt.
Á þessum síðustu 30 mínútum skoraði Fjölnir nefnilega hvorki fleiri né færri en 6 mörk! Og þar af skoraði Dalvíkingurinn knái sem undanfarið hefur leikið með FH, Atli Viðar Björnsson, tvö síðustu mörk Fjölnis.