Undanúrslitarimmur karla í blaki halda áfram í kvöld en leikið verður í Reykjavík og Garðabæ. Deildar-og bikarmeistarar KA sækja Þróttara heim í Íþróttahús HÍ. KA leiðir einvígið 1:0 og getur með sigri í kvöld komist í úrslit.
KA lenti í basli með Þróttara á heimavelli sl. mánudag en vann leikinn engu að síður 3:2. Þróttarar veittu norðanmönnum harða keppni og því gæti leikurinn í kvöld orðið erfiður KA-mönnum. Vinni Þróttarar mætast liðin í oddaleik á föstudaginn kemur í KA-heimilinu.
Í Garðabænum mæta Stjörnumenn liði HK sem vann nokkuð auðveldan sigur í Fagralundi á mánudagskvöldið var. Hilmar Sigurjónsson og félagar í Stjörnunni þurfa sigur í kvöld til þess að halda sér inni í úrslitakeppninni.
Báðir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:30.