„Einelti er samfélagslegt fyrirbæri og það finnst alls staðar, óháð aldri, stöðu og skipulagsheildum, hvort heldur er skóli, vinnustaður eða íþróttafélag. Það er alls ekki nóg að allir þekki orðið einelti, þeir sem vinna með börnum og ungmennum þurfa að skilja hvað hugtakið merkir, að geta greint það, þekkt einkenni bæði þolenda og gerenda og kunna leiðir til að bregðast við. Þeir þurfa líka að kunna á leiðir til að vinna með þolendum og gerendum,“ segir Sigríður Ingadóttir, verkefnastjóri hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.
Hún vinnur nú með tveimur stóru íþróttafélögum bæjarins að gerð áætlunar gegn einelti. „Birtingarmyndirnar geta verið margvíslegar, líkamlegar, andlegar og eins er gjarnan beitt útilokun. Það er því nauðsynlegt að bjóða upp á stöðuga fræðslu þegar að einelti kemur og að félögin séu tilbúin
með eins konar viðbragðsáætlun þegar það kemur upp.“
Fagna jákvæðum viðtökum
Sigríður starfaði sem grunnskólakennari í 11 ár og var jafnframt verkefnastjóri Olweusar áætlunarinnar gegn einelti í grunnskóla. Hún er nú verkefnastjóri hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og hefur m.a. sinnt ráðgjöf og þróunarverkefnum er varða samskipti nemenda.
„Málefnið er mér kært og því hafði ég samband við íþróttafélögin KA og Þór og bauð þeim að styrkja forvarnarstarf þeirra á þessu sviði enn frekar og með velliðan iðkenda að leiðarljósi. Ég fagna því mjög að hafa fengið jákvæðar viðtökur hjá báðum félögum. Samstarf er komið á og það er hagur iðkenda, barnanna okkar, að íþróttafélögin í bæjarfélaginu sinni þessum málaflokki heilshugar. Óskastaðan er auðvitað sú að öll íþróttafélög og yfirleitt allir sem starfa með börnum og ungmennum marki sér stefnu gegn einelti og andfélagslegri hegðun og framfylgi henni
með því að efla sitt starfsfólk með markvissri fræðslu og vitundarvakningu,“ segir Sigríður.
Lengri frétt má nálgast í prentúgáfu Vikudags en þar er m.a. rætt við forsvarsmenn KA og Þórs.