KA Haustmótsmeistarar 2009

KA gerði góða hluti á Haustmóti Blaksambands Íslands (BLÍ) sem haldið var í Kópavogi um síðustu helgi. Alls kepptu 26 lið á mótinu og var spilað í tveimur deildum í kvennaflokki og í einni deild í karlaflokki. Í 1. deild karla gerði KA sér lítið fyrir og sigraði alla sína leiki á mótinu, 2:0. KA lagði Þrótt R. að velli í úrslitaleiknum og varð Haustmótsmeistari 2009.

Sigurinn hjá norðanmönnum er ekki síst góður í ljósi þess að tvíburarnir sterku, þeir Hafsteinn og Kristján Valdimarssynir, hafa yfirgefið liðið en þeir bræður leika nú með danska liðinu Aalborg HIK. KA hefur hins vegar fengið góðan liðsstyrk í Ólafsvíkingnum, Jóhanni Eiríkssyni, sem gekk til liðs við félagið í haust. Þá hafnaði kvennalið KA í þriðja sæti í 2. deild mótsins en félagið vann tvo leiki en tapaði einum. KA hefur svo leik á Íslandsmótinu föstudaginn 9. október næstkomandi í karla- og kvennadeild.

Nýjast