Jón Kristinn Íslandsmeistari barna í skák

Jón Kristinn Þorgeirsson frá Skákfélagi Akureyrar og nemandi í Lundarskóla, er Íslandsmeistari barna í skák árið 2009. Hann sigraði í úrslitamóti þriggja efstu keppenda á mótinu, sem urðu jafnir að vinningum eftir hörkuspennandi og fjölmennt Íslandsmót í þessum yngsta flokki, sem fór fram um sl. helgi í Reykjavík. Jón Kristinn vann allar sínar fjórar skákir í úrslitakeppninni.  

Í öðru sæti varð Oliver Aron Jóhannesson úr Rimaskóla og í þriðja sæti Karen Eva Kristjánsdóttir í Hjallaskóla en hún varð Íslandsmeistari telpna 2009. Þeir Jón Kristinn og Oliver Aron unnu sér sæti á Norðurlandamóti í skólaskák sem fram fer í Færeyjum dagana 12. - 14. febrúar. Mjög góð þátttaka var á Íslandsmótinu en 96 skákmenn tóku þátt, þar af þrír frá Skákfélagi Akureyrar. Aðalsteinn Leifsson, 10 ára, hafnaði í 12. sæti með 5,5 vinninga. Hann tefldi nánast út allt mótið á efstu borðunum, var óheppinn að fá félaga sinn Jón Kristinn í lokaumferðinni og féll niður um sjö sæti. Tinna Ósk Rúnarsdóttir, 8 ára, hlaut 4,5 vinninga og varð sjöunda í röðinni af stelpunum.  Jón Kristinn hampaði þremur bikurum á mótinu, því hann fékk einnig bikar fyrir að vera efstur í sínum árgangi, 1999.

Nýjast