Jarðskjálfti af stærðinni 4,6 varð klukkan 3.42 í nótt 11 kílómetra norðvestur af Gjögurtá. Tíu mínútum síðar eða klukkan 3.52 varð eftirskjálfti af stærðinni 3,7. Nokkrir minni skjálftar hafa fylgt í kjölfarið. Tilkynningar hafa borist veðurstofunni um að skjálftarnir hafi fundist víða á Tröllaskaga og í Eyjafirði, Skagafirði og víðar um Norðurland.
Í liðinni viku voru rétt rúmlega 300 jarðskjálftar staðsettir á Tjörnesbrotabeltinu, þar af um 270 úti fyrir mynni Eyjafjarðar þar sem jarðskjálftahrina hefur verið í gangi síðan 19. júní. Stærsti skjálftinn í hrinunni í síðustu viku var 2,9 að stærð en jafnt og þétt hefur dregið úr virkni á svæðinu undanfarið. Níu skjálftar mældust á Grímseyjarbeltinu og tíu á austurhluta Húsavíkur-Flateyjar misgengisins á Skjálfanda. Þrír smáskjálftar mældust við Kröflu og stakur skjálfti í Kelduhverfi.