Það styttist í að kylfingar taki gleði sína því hagstæð tíð gerir það að stefnt er að þvi að opna Jaðarsvöll fyrir spilamennsku n.k. mánudag 12 maí.
Golfklúbbur Akureyrar leitar til félagsfólks með aðstoð á lokametrunum við undirbúning opnunar eins og lesa má á heimasíðu klúbbsins.
,,Í ár ætlum við að vera með tvo vinnudaga, fyrri vinnudagur er á fimmtudaginn næsta, 8. maí, frá klukkan 17-20 og endar hann á súpuveislu hjá Jaðar Bistro. Við tökum svo aftur höndum saman á sunnudaginn næsta, 11. maí, frá klukkan 10-14 og endum á kaffiboði hjá Jaðar Bistro.
Æfingasvæðið - Klappir
Golfskáli og nærumhverfi
Golfvöllur
Það er nóg af verkefnum fyrir alla og vonumst við til að sjá sem flesta taka þátt í þessu með okkur. Skráning á teigtíma fyrir mánudag opnar á golfbox fyrir félagsmenn GA á fimmtudaginn kemur. Fyrst um sinn verða allar holur vallarins opnaðar nema 14. braut og verður rástímaskráning með sama móti og á haustin eða skráð sig sérstaklega á fyrri 9 og seinni 9 og er það gert til að dreifa álagi á völlinn.
Völlurinn er að koma mjög vel undan vetri og hefur gott tíðarfar undanfarnar vikur gert gæfumun fyrir völlinn, hann grænkar vel og þornar upp í hitanum sem hefur verið og hlökkum við mikið til að opna og taka á móti félagsmönnum okkar og þeim fjölmörgu gestum sem leggja leið sína á Jaðarsvöll ár hvert.
Til að allt verði sem best fyrir opnun er okkur mikilvægt að félagsmenn aðstoði okkur á vinnudögunum við allt sem þarf að gera."