Stöðvarstjóri vill strætóferðir á flugvöllinn

Fyrir öflugan flugvöll verða samgöngur að vera í lagi og er eitt af því sem gerir flugvöll frambæril…
Fyrir öflugan flugvöll verða samgöngur að vera í lagi og er eitt af því sem gerir flugvöll frambærilegan segir Ari Fossdal.

Ari Fossdal, stöðvarstjóri Air Iceland Connect á Akureyrarflugvelli, segir að það sé með ólíkindum að ekki séu betri almenningssamgöngur til og frá Akureyrarflugvelli en raun er. Eins og staðan er í dag eiga farþegar einungis kost á því að taka leigubíl. 

Ari segist í mörg ár hafa ítrekað mikilvægi þess að fá strætóferðir á milli bæjarins og flugvallarins við bæjaryfirvöld á Akureyri en talað fyrir lokuðum eyrum.

„Hugsaðu þér flugvöll út í heimi þar sem engar samgöngur væru nema leigubílar? Það er verið að tala um að búa til alþjóðaflugvöll hér en það vantar algjörlega almenningssamgöngur þennan spöl sem er inn í bæinn,“ segir Ari Fossdal sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublað Vikudags.

„Við eigum auðvitað að tengjast öðrum samgöngum. Fyrir öflugan flugvöll verða samgöngur að vera í lagi. Það er eitt af því sem gerir flugvöll frambærilegan,“ segir Ari. Vikudagur hefur áður fjallað um skort á almenningssamgöngum á flugvöllinn en margir eru á þeirri skoðun að strætó þurfi að ganga þarna á milli.

Fulltrúar í ferðaþjónustu hafa áhyggjur af samgönguleysi

Í fyrra greindi blaðið frá því að framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands hafi fengið fyrirspurnir frá erlendum flugfélögum varðandi samgöngur frá Akureyrarflugvelli. Erlend flugfélög hafi áhyggjur af því hvernig farþegar komist frá vellinum, hvort samgöngur séu reglulegar, aðgengilegar og hver kostnaðurinn sé. 

Þá sendi forstjóri Air Iceland Connect bréf til bæjaryfirvalda á Akureyri þar sem samgöngur frá flugvellinum voru gagnrýndar og þeim sagt ábótavant. Flugfélagið skoraði á Akureyrarbæ að hefja strætóferðir á Akureyrarflugvöll. Einnig hafa íslenskar ferðaskrifstofur lýst áhyggjum sínum af því að ekki séu reglulegar samgöngur við flugvöllinn og benda á að skortur á samgöngum geta haft neikvæð áhrif á að efla ferðaþjónustu á svæðinu.

Nýjast