Ítalskir hljóðfæraleikarar á tónleikum í Laugarborg

Ítölska tónlistarfólkið Natalia Benedetti klarínettuleikari og Sebastiano Brusco  píanóleikari halda tónleika í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit í kvöld, mánudagskvöld kl. 20.30. Tónleikarnir eru liður í vetrardagskrá Laugarborgar og á efnisskrá eru verk eftir C. Saint-Saëns, R. Schumann, F. Poulenc og L. Bernstein.

Sebastiano Brusco lærði hjá Aldo Ciccolini og Ennio Pastorino (nemanda Arturo Benedetti Michelangeli). Hann vann fyrstu verðlaun í Alþjóðlegu kammertónlistarkeppninni "Carlo Soliva" (1998). Hann hefur leikið einleik með þekktum hljóðfæraleikurum, hljómsveitum og stjórnendum eins og Ríkissinfóníuhljómsveitinni í Transylvaníu, I Solisti Veneti og Sinfóníuhljómsveitinni í Mílanó með stjórnendunum Riccardo Chailly, Romano Gandolfi og Claudio Scimone einnig í Mexíkó með l'Orquesta de la UANL di Monterrey. Hann hefur starfað með hinum heimsþekkta fiðluleikara Vadim Brodsky og leikið með Bernini kvartettinum. Hann hefur haldið tónleika í þekktum tónleikahúsum og tónlistarhátíðum svo sem í Auditorium í Róm, Nuova Auditorium í Mílanó, Pergolesi tónlistarhátíðinni í Jesi. Einnig tónlistarhátíðunum í Ravello, Todi, L'Aquila, Bari. Hann hefur leikið í Chopin stofnuninni í Varsjá og haldið tónleika í Sviss, New York, Washington, Alanta, Flórída, Kanada, Póllandi, Þýskalandi, Rúmeníu. Hann hefur leikið inn á geisladiska tónlist eftir Franz Schubert og með píanóleikaranum Marco Solastra undir merkjum  Phoenix Classics útgáfunnar.


Natalia Benedetti útskrifaðist með láði frá Tónlistarháskólanum í Perugia 2005. Hún hefur unnið fimmtán þekktar tónlistarkeppnir m.a. í Stresa, A.R.M Róm og Genúa. Natalia hefur leikið á mörgum virtum tónlistarhátíðum svo sem Feneyjartvíæringnum, Tónlistarhátíðinni í Spoleto og Listahátíðinni í Edinborg. Tónleikaferðir hennar til Palestínu, Ísraels, Ungverjalands, Póllands, Belgíu, Sviss, Þýskalands og Lúxemborgar fengu mikið lof gagnrýnenda. Hún hefur einnig hljóðritað fyrir útvarpsstöðvarnar RAI og RTL í Lúxemborg. Hún lék með hinum virtu tónlistarmönnum Heinz og Ursula Holliger á Elliot Carter tónlistarhátíðinni í Florenz 2008. Natalia er listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar í Bevagna á Ítalíu.





Nýjast