Íslenski dansflokkurinn sýnir verðlaunuð verk á Akureyri

Um helgina sýnir Íslenski dansflokkurinn tvær sýningar í Samkomuhúsinu á Akureyri, á morgun föstudag og á laugardag.  Í samstarfið við LA býður dansflokkurinn Norðlendingum upp á þrjú  af vinælustu verkum síðustu ára. Þetta er frábært tækifæri fyrir Norðlendinga til að kynnast Íslenska dansflokknum betur þar sem sýningarnar gefa góða mynd af þeirri fjölbreytni sem að einkennir flokkinn.  

Verkin sem verða  sýnd eru Skekkja eftir Sveinbjörgu Þórhallsdóttur sem þau Cameron Corbett og Lovísa Ósk Gunnarsdóttir dansa, en Lovísa var tilnefnd til Grímunnar 2009 sem besti dansarinn fyrir þetta verk.  Annað verkið á dagskránni verður Svanurinn sem er fallegur og erotískur dúett eftir Láru Stefánsdóttur, dansaður af Hannesi Egilssyni og Emilíu Benediktu Gísladóttur.  Síðast á dagksránni verður svo Kvart en þar dansa dansararnir fyrir hvern annan líkt og hipp-hopparar á götum stórborga eða ættbálkar í Afríku gera. Við sjáum kraftmikinn og fagran dans við magnaða tónlist eftir finnska tónskáldið Kimmo Pohjonen sem hefur meðal annars unnið með Sigur Rós og Múm. Höfundur Kvart er Norðmaðurinn Jo Strömgren en hann fékk Grímuverðlaunin 2008 fyrir þetta verk. Dansarar í Kvart eru: Aðalheiður Halldórsdóttir, Cameron Corbett, , Hannes Egilsson, Katrín Á. Johnson, Katrín Ingvadóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir,  Steve Lorenz og Emelía Benedikta Gísladóttir sem var valin besti dansarinn á Grímunni 2008 fyrir sinn þátt í Kvart.

Nýjast